Nánast engin bið er eftir leikskólaplássi á Akureyri, á sama tíma og mikil vandræði eru á höfuðborgarsvæðinu, langir biðlistar, mótmæli og bráðaaðgerðir.

Einu börnin á biðlista fyrir norðan eru börn foreldra sem nýlega hafa flutt eða eru að flytja til Akureyrar.

„Það er nýbúið að opna nýjan og stóran leikskóla, Klappir, og hann svaraði mikilli þörf; svo erum við að vinna að því að taka inn 12 mánaða börn. Við erum líka með allnokkra dagforeldra," segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Athygli vekur hve ástandið er gott, miðað við að nýlega aðflutt leikskólabörn eru fleiri en þau sem hafa flust í burtu.

Bæjarstjóri segir mikið lán í þessu samhengi að Akureyri glími ekki við manneklu.

„Við eigum ekki við mönnunarvanda að stríða og erum með hátt hlutfall fagmenntaðra starfsmanna."