Nóvember er ellefti mánuður ársins og er nefndur eftir latneska töluorðinu „novem“, sem þýðir níu á íslensku. Ástæðu nafnsins má rekja til þess að í latneska dagatalinu var nóvember níundi mánuðurinn í árinu en janúar og febrúar voru þeir elleftu og tólftu. Samkvæmt latneska dagatalinu hófst árið þann 1. mars.

Nóvember er ekki bara nafn ellefta mánaðar ársins heldur er Nóvember einnig íslenskt karlmannsnafn. Engin núlifandi manneskja ber nafnið en sex karlmenn eru með nafnið Nóvember skráð sem millinafn í Íslendingabók, þess má geta að allir eru þeir fæddir í nóvember.

Sumir segja nóvember erfiðasta mánuð ársins. Vissulega er farið að dimma og kólna, haustið að líða hjá og bið eftir vetrinum hafin og það sama má segja um biðina eftir jólunum. Ekki er mikið um dýrðir í mánuðinum og mest spennandi mánuður ársins að margra mati, sjálfur desember, tekur við að nóvember greyinu loknum.

Margt má þó finna sér til dundurs og skemmtunar í nóvember og tók Fréttablaðið saman nokkrar hugmyndir.

Pikklaðu grænmeti

Haustið er rétti tíminn til að pikkla grænmeti til að eiga fyrir veturinn og er því ekki að ástæðulausu að Bandaríkjamenn halda upp á árlegan pikkl-dag (National Pickle Day) þann 14. nóvember. Grænmetið sem pikklað er í nóvember er svo tilvalið að nota á jólaborðið og því ekki að taka upp þennan bandaríska sið? Pikklaður rauðlaukur fer til dæmis sérstaklega vel með síld og svínakjöti.

Pikklaður rauðlaukur:

4 rauðlaukar

1 dl edik

2 dl sykur

3 dl vatn

Setjið edik, vatn og sykur í pott og látið sjóða þar til sykurinn er bráðnaður. Skerið rauðlaukinn í tvennt og svo í sneiðar og komið honum fyrir í

passlega stóru íláti sem hægt er að loka og þolir hita. Hellið svo edikblöndunni yfir laukinn og setjið til hliðar.

Leyfið lauknum að standa í að minnsta kosti fimmtán mínútur, því lengur sem hann fær að liggja í edikvökvanum því sætari verður hann.

Pikklaður rauðlaukur
Fréttablaðið/Getty

Hreinsaðu til í fataskápnum

Það er alltaf góð hugmynd að hreinsa til í fataskápnum en hún er sérstaklega góð í nóvember. Sama hvort hreinsunin snúi að því að færa sumarfötin til að gera pláss fyrir vetrarfötin eða hreinlega losa sig við það sem ekki er í notkun er alltaf gott að fara í gegnum það sem er í fataskápnum.

Við mælum að sjálfsögðu með að koma fötunum sem þið eruð hætt að nota í áframhaldandi notkun annars staðar. Víðs vegar er hægt að endurselja fötin, svo sem í Hringekjunni, Verslanahöllinni og Extraloppunni, svo má alltaf koma fötum í söfnunargáma Rauða krossins.

Fréttablaðið/Getty

Farðu í göngutúr

Miklar sveiflur geta verið í veðri í nóvember. Ef svo heppilega vill til að veðrið er með okkur i liði getur verið yndislegt að fara í göngutúr, jafnvel þó að kalt sé úti, rigning eða snjór, er göngutúrinn hressandi bæði fyrir líkama og sál. Lykilatriði er að klæða sig vel og eftir veðri og huga sérstaklega að skóbúnaði.

Göngutúr getur verið allt frá einum hring í kringum húsið til fjallgöngu. Fyrir borgarbúa er alltaf notalegt að labba niður Laugaveginn eða ganga hringinn í kringum Tjörnina en einnig er gaman að ganga Esjuna eða um Nesjavelli.

Skannaðu kóðann og sjáðu gönguleiðir um allt land:

Skannaðu kóðann og sjáðu gönguleiðir um allt land

Nóvember-nestisátak

Eins og það getur verið gott og gaman að fara út að borða í hádeginu er yfirleitt betri hugmynd að taka með sér nesti í skólann eða vinnuna. Það getur verið afar kostnaðarsamt að kaupa sér mat á hverjum degi og því getur verið mikill sparnaður í því að taka með sér nesti. Afgangar síðan kvöldið áður, smurð samloka með eggjum og grænmeti eða núðlur geta verið herramannsmatur í hádeginu.

Þegar fólk tekur með sér nesti getur líka reynst auðveldara að halda sig við ákveðið matarplan, borða hollara, ná fleiri eða færri hitaeiningum, meira prótíni eða hverju því sem hentar. Ef þú ert með nesti sem þú hefur undirbúið daginn áður eða að morgni er ólíklegra að þú skellir þér á næsta hamborgara- eða pitsustað. Gangi vel með nestið má svo til dæmis verðlauna sig með pitsueða hamborgarastaðarferð einu sinni í viku, kannski á föstudögum

Það getur falist mikill sparnaður í því að taka með sér nesti í skólann eða vinnuna.
Fréttablaðið/Getty

Fagnaðu þakkargjörðardeginum

Íslendingar eru ekki óvanir því að taka upp hinar ýmsu hátíðir sem fagnað er í Bandaríkjunum og er þekktasta dæmið líklega hrekkjavakan. Bandaríkjamenn halda þakkargjörðarhátíðina fjórða fimmtudag í nóvember ár hvert.

Þakkargjörðarhátíðin einkennist af samveru og góðum mat og er hin hefðbundna þakkargjörðarmáltíð kalkúnn með öllu tilheyrandi. Hver fjölskylda hefur sínar hefðir með matinn en hin hefðbundna máltíð samanstendur af kalkúni með fyllingu, trönuberjasósu, sætkartöflumús og

brúnni sósu. Í eftirrétt er svo klassískt að hafa einhvers konar böku (e. pie). Vinsælar eru bæði graskersbaka og eplabaka.

Kalkúnafylling:

40 g smjör

200 g sveppir

2 meðalstórir skalottlaukar

1 sellerístilkur

1 epli

100 g beikon

3 msk. rjómaostur

Timían

Steinselja

Kalkúnakrydd

4 döðlur

Salt og pipar

Hitið smjör á pönnu og steikið sveppi, lauk, sellerí, epli og beikon í örfáar mínútur. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið vel saman