Sigur­jón Hendriks­son, varð­stjóri hjá Slökkvi­liðinu á höfuð­borgar­svæðinu, segir slökkvi­liðið hafa undir­búið sig vel vegna mikilla um­skipta í veðri frá kulda­tíðinni sem verið hefur. Sex út­köll hafi borist það sem af er morgni vegna vatns­leka, en sem stendur eru slökkvi­liðs­menn á vett­vangi á tveimur stöðum í borginni.

„Þetta er aðal­lega vatn sem er að koma frá þökum og svölum. Eins frá niður­föllum og svo eru jafn­vel niður­föll sem eru frost­sprungin og skapa leka,“ segir Sigur­jón.

„Út­köllin bárust á níunda og tíunda tímanum í morgun og eru þau bæði í Breið­holtinu. Annars vegar í Selja­hverfi og hins vegar í Mjóddinni Álfa­bakka, en við erum búnir að vera með bíl þar síðasta klukku­tímann. Þar fór að safnast fyrir vatn og klaki og lekur á ýmsum stöðum í húsinu. Þeir eru búnir að vera að reyna að finna niður­föll og losa um,“ bætir hann við.

Sigur­jón segir morguninn vissu­lega hafa haft í för með sér nóg af vatni, en hann hafi heyrt af vatns­elgjum víðast hvar um borgina.

„Við heyrðum að það hefði verið vatns­flaumur hjá Víkinni en höfum ekki fengið út­kall þangað enn sem komið er. Svo er mikill vatns­flaumur bæði í Glæsi­bæ og svo undir brúnni hjá Smáranum. Það eru víst ein­hverjir búnir að vera í vand­ræðum með bíla sem hafa drepist á. Þannig að það er nóg af vatni,“ segir Sigur­jón.

Að sögn Sigur­jóns er tals­verður við­búnaður hjá slökkvi­liðinu vegna asa­hlákunnar sem spáð var í dag og fram á morgun.

„Við reyndum að vinna okkur að­eins í haginn og manna stöðvarnar vel. Svo erum við með tvær auka þjónustu­bif­reiðar sem við settum sér­stak­lega upp sem eru með auka dælum og búnaði og við erum að keyra á milli,“ segir Sigur­jón.

Þó hafi ekki enn komið til þess að þær hafi verið nýttar.

„Við eigum væntan­lega eftir að nota þær bráð­lega þar sem við eigum von á því að þetta verði anna­samur dagur. Við verðum ef­laust í verk­efnum tengdum vatns­leka stóran hluta af deginum,“ segir Sigur­jón.

Þá vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minna á að mikill vatns­elgur er víða á götum á höfuð­borgar­svæðinu. Öku­menn eru hvattir til að aka var­lega og flýta sér hægt.

Einnig er varað sér­stak­lega við hálku, en flug­hálka er lík­leg til að myndast á blautum klaka og ættu allir veg­far­endur að hafa það hug­fast.

Þá er almenningur hvattur til að huga að niður­föllum og hreinsa frá þeim, ekki síst niður­föllum á svölum húsa, sem þau eigi það til að gleymast.

Lögregla telur ríka á­stæða til að vara fólk við því að fara út á ís á vötnum og í fjörum. For­ráða­menn eru beðnir um að brýna fyrir börnum sínum hættuna sem af því stafar.