Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir slökkviliðið hafa undirbúið sig vel vegna mikilla umskipta í veðri frá kuldatíðinni sem verið hefur. Sex útköll hafi borist það sem af er morgni vegna vatnsleka, en sem stendur eru slökkviliðsmenn á vettvangi á tveimur stöðum í borginni.
„Þetta er aðallega vatn sem er að koma frá þökum og svölum. Eins frá niðurföllum og svo eru jafnvel niðurföll sem eru frostsprungin og skapa leka,“ segir Sigurjón.
„Útköllin bárust á níunda og tíunda tímanum í morgun og eru þau bæði í Breiðholtinu. Annars vegar í Seljahverfi og hins vegar í Mjóddinni Álfabakka, en við erum búnir að vera með bíl þar síðasta klukkutímann. Þar fór að safnast fyrir vatn og klaki og lekur á ýmsum stöðum í húsinu. Þeir eru búnir að vera að reyna að finna niðurföll og losa um,“ bætir hann við.
Sigurjón segir morguninn vissulega hafa haft í för með sér nóg af vatni, en hann hafi heyrt af vatnselgjum víðast hvar um borgina.
„Við heyrðum að það hefði verið vatnsflaumur hjá Víkinni en höfum ekki fengið útkall þangað enn sem komið er. Svo er mikill vatnsflaumur bæði í Glæsibæ og svo undir brúnni hjá Smáranum. Það eru víst einhverjir búnir að vera í vandræðum með bíla sem hafa drepist á. Þannig að það er nóg af vatni,“ segir Sigurjón.
Að sögn Sigurjóns er talsverður viðbúnaður hjá slökkviliðinu vegna asahlákunnar sem spáð var í dag og fram á morgun.
„Við reyndum að vinna okkur aðeins í haginn og manna stöðvarnar vel. Svo erum við með tvær auka þjónustubifreiðar sem við settum sérstaklega upp sem eru með auka dælum og búnaði og við erum að keyra á milli,“ segir Sigurjón.
Þó hafi ekki enn komið til þess að þær hafi verið nýttar.
„Við eigum væntanlega eftir að nota þær bráðlega þar sem við eigum von á því að þetta verði annasamur dagur. Við verðum eflaust í verkefnum tengdum vatnsleka stóran hluta af deginum,“ segir Sigurjón.
Þá vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minna á að mikill vatnselgur er víða á götum á höfuðborgarsvæðinu. Ökumenn eru hvattir til að aka varlega og flýta sér hægt.
Einnig er varað sérstaklega við hálku, en flughálka er líkleg til að myndast á blautum klaka og ættu allir vegfarendur að hafa það hugfast.
Þá er almenningur hvattur til að huga að niðurföllum og hreinsa frá þeim, ekki síst niðurföllum á svölum húsa, sem þau eigi það til að gleymast.
Lögregla telur ríka ástæða til að vara fólk við því að fara út á ís á vötnum og í fjörum. Forráðamenn eru beðnir um að brýna fyrir börnum sínum hættuna sem af því stafar.