Manna­nafna­nefnd sam­þykkti ný­lega að setja nöfnin Svart­höfði, Bond, Appollo og Blár á manna­nafna­skrá. Þá var kven­kyn­seigin­nafnið Kvika sam­þykkt auk þess sem nafnið Sky­lar bætist í ört stækkandi hóp kyn­hlut­lausra eigin­nafna.

Ekki hlutu voru þó allar til­lögur sam­þykktar af nefndinni og var milli­nöfnunum Octa­vius, Degen, og Welding til dæmis hafnað, meðal annars á grund­velli þess að vera ættar­nöfn eða ekki dregin af ís­lenskum orð­stofni. Mis­munandi reglur gilda um eigin­nöfn og milli­nöfn sem sést til að mynda í því að Octa­vius var sam­þykkt sem eigin­nafn en ekki sem milli­nafn.

Manna­nafna­nefnd felldi alls 24 úr­skurði 6. og 11. ágúst. Í rök­stuðningi nefndarinnar fyrir sam­þykkt Svart­höfða segir meðal annars að eigin­nafnið taki ís­lenska beygingu í eignar­falli og hafi tíðkast á Ís­landi á öldum áður. Í Ís­lendinga­bók eru 23 ein­staklingar skráðir með nafnið en að­eins einn þeirra, Alex Gló Svart­höfði Sigurðar, er á lífi og fæddist árið 2006.

Fær að heita Kona

Að sögn manna­nafna­nefndar getur eigin­nafnið Blár talist leitt af karl­kyns­nafn­orðinu blár og telst það upp­fylla lög um manna­nöfn. Nafnið beygist svona: Hér er Blár, um Blá, frá Blá, til Blás.

Nefndin segir um kven­kyn­seigin­nafnið May að fimm konur beri nafnið í Þjóð­skrá og rit­hátturinn hafi því unnið sér hefð í ís­lensku. Í öðrum úr­skurði segir að eigin­nafnið Apollo sé að upp­runa forn­grískt, Apollōn . Um­ritunin Apollo tíðkist í ensku og öðrum málum og telst rit­hátturinn því upp­fylla skil­yrði nefndarinnar.

Á sama fundi sam­þykkti nefndin kven­kyn­seigin­nafnið Kona en um­boðs­maður Al­þingis á­lyktaði ný­lega að Manna­nafna­nefnd hefði brotið lög þegar nefndin synjaði Elínu Konu Eddu­dóttur um að taka upp nafnið árið 2019.

Nöfn sem voru sam­þykkt

 • Karl­kyn­seigin­nafnið António
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Ann­þór
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Apollo
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Blár
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Bond
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Charli­e
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Eljar
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Foss
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Octa­vius
 • Karl­kyn­seigin­nafnið Svart­höfði
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Eil­eif
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Kona
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Kvika
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Lissi­e
 • Kven­kyn­seigin­nafnið May
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Saara
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Sarah
 • Kven­kyn­seigin­nafnið Thali­a
 • Kyn­hlut­lausa eigin­nafnið Sky­lar
 • Milli­nafnið Dalland

Nöfnum sem var hafnað

 • Karl­kyn­seigin­nafnið Gunnar­son
 • Milli­nafnið Degen
 • Milli­nafnið Foss
 • Milli­nafnið Octa­vius
 • Milli­nafnið Welding