Lík mannanna fjögurra sem létust í flug­slysi á Þing­völlum síðast­liðinn fimmtu­dag fundust í Þing­valla­vatni í gær. Ekki verður reynt að kafa eftir þeim fyrr en veður gengur niður.

Flug­stjóri vélarinnar hét Haraldur Diego. Haraldur var fæddur 12. apríl 1972 og hefði hann því orðið fimm­tugur síðar á árinu. Hann rak fyrir­tækið Vol­ca­no Air Iceland og hafði starfað sem flug­maður og ljós­myndari árum saman. Þá gegndi hann stöðu formanns AOPA, hags­muna­fé­lags flug­manna og flug­véla­eig­enda á Ís­landi og var rit­stjóri Flugsins, tíma­rits um flug­mál.

Far­þegarnir þrír sem voru um borð hétu Nicola Bellavia, Josh Neuman og Tim Alings. Nicola var 32 ára Belgi, Josh 22 ára Banda­ríkja­maður og Tim 27 ára Hollendingur.

Nicola og Josh voru á­hrifa­valdar en Josh var auk þess þekktur hjóla­bretta­kappi, að því er fram kemur í um­fjöllun Morgun­blaðsins. Hann hélt úti vin­sælli YouTu­be-síðu með tæp­lega 1,2 milljónum fylgj­enda. Tim starfaði í markaðs­deild fata­fyrir­tækisins Suspicious Antwerp.