Héraðs­dómur Reykja­ness hefur á­kveðið að hætta að birta nöfn sak­borninga við þing­festingar máls, líkt og venja hefur verið fyrir. Á­stæðan er „ó­næði frá á­kveðnum lög­manni“, að sögn Sveins Andra Sveins­sonar Hæsta­réttar­lög­manns. Hann segir um­ræddan lög­mann hringja í alla sem koma fyrir dag­skrá réttarins til þess að bjóða sig fram sem verjanda.

Kann lög­manninum engar þakkir

„Það er venja hjá okkur lög­mönnum sem sinnum verj­enda­störfum að renna reglu­lega yfir dag­skrá dóm­stólanna til að sjá hvort ein­hver af okkar skjól­stæðingum eigi að mæta í dómi. Nú skilst mér að Héraðs­dómur Reykja­ness hafi á­kveðið að hætta birtingu nafna á sak­borningum á dag­skrá réttarins þegar um þing­festingar er að ræða,“ skrifar Sveinn Andri á Face­book-síðu sína og bætir við að þetta hafi í för með sér mikið ó­hag­ræði.

„Á­stæðan er mikið ó­næði frá á­kveðnum lög­manni úti í bæ sem hringir í alla sem koma fyrir á dag­skrá réttarins og býður sig fram sem verjanda. Ég færi við­komandi engar þakkir frá okkur kollegum hans fyrir þetta ó­hag­ræði sem hann veldur,“ bætir hann við.

Ekkert ó­eðli­legt við að bjóða fram verjanda

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er Ómar R. Valdimars­son um­ræddur lög­maður. Hann vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og kannaðist ekki við kvartanir á hendur sér. Ómar sagði hins vegar að það væri hvorki ó­al­gengt né ó­eðli­legt að bjóða fólki sem sætir á­kæru þjónustu og full­yrti að hann hafi að­eins sam­band við sak­borninga sem eru ekki skráðir með verjanda.

Ómar R. Valdimarsson segir ekki óalgengt að bjóða fólki sem sætir ákæru þjónustu.

Blaðið hefur talað við nokkra lög­menn vegna málsins sem kvarta sáran undan vinnu­brögðum Ómars og segja fram­ferði hans gera þeim erfitt fyrir. Kvartanir hafi verið lagðar fram vegna málsins. Berg­lind Svavars­dóttir, for­maður Lög­manna­fé­lags Ís­lands, stað­festi í sam­tali við blaðið að kvartanir hafi borist en vildi ekki upp­lýsta hvort þær tengdust vinnu­brögðum Ómars. Þá hafði hún ekki heyrt af á­kvörðun Héraðs­dóms Reykja­ness um að afmá nöfn sak­borninga af dag­skrá dóm­stólsins.

„Ég get stað­fest að það hafa borist kvartanir vegna lög­manna en ég get ekki tjáð mig frekar um það,“ sagði hún og bætti við að málið verði skoðað frekar.

Þá stað­festi Jenný Jóns­dóttir, skrif­stofu­stjóri Héraðs­dóms Reykja­ness, að nöfn sak­borninga verði ekki lengur birt á dag­skrá dóm­stólsins. Hún hafði þó ekki upp­lýsingar um hvers vegna á­kvörðunin var tekin.