Nóbels­verð­launin í efna­fræði 2021 voru veitt í dag og fóru þau til Þjóð­verjans Benja­min List og hins skosk-ættaða David MacMillan fyrir að þróa nýja að­ferðar við byggingu sam­einda.

Að mati Nóbels­nefndarinnar hefur vinna þeirra kollega haft mikil á­hrif á rann­sóknir í lyfja­fræði og þar að auki gert efna­fræði um­hverfis­vænni.

Þeir List og MacMillan munu deila verð­launa­fénu, 10 milljónum sænskra króna, and­virði um 146,5 milljónum ís­lenskra króna.

Líkt og síðasta ár verður engin verð­launa­at­höfn í Stokk­hólmi vegna á­hrifa Co­vid-19 far­aldursins. Verð­launa­hafarnir munu þess í stað taka við verð­laununum í sínu eigin heima­landi.

List starfar hjá Max Planck stofnuninni í Þýska­landi en MacMillan hjá Princet­on há­skóla í Banda­ríkjunum. Að sögn AP frétta­stofunnar var List mjög hissa á því að fá Nóbels­verð­launin. Hann hafi verið í fríi með fjöl­skyldunni í Amsterdam þegar hann fékk sím­tal frá sænsku Nóbels­nefndinni.

„Líf­rænir efna­hvatar geta verið notaðir til að koma af stað fjöl­mörgum efna­hvörfum,“ segir í yfir­lýsingu Nóbels­nefndarinnar.

„Með því að nota þessi hvörf geta rann­sak­endur nú sett saman á mun skil­virkari hátt allt frá nýjum lyfjum yfir í sam­eindir sem fanga ljós í sólar­raf­hlöðum.“

Næstu daga verða friðar­verð­laun Nóbels veitt og einnig Nóbels­verð­launin í bók­menntum og hag­fræði.