Rúss­neski blaða­maðurinn Dmitrí Múratov varð fyrir árás í járn­brautar­lest í Rúss­landi í gær. Múratov, rit­stjóri dag­blaðsins Nova­ya Gazeta, hlaut friðar­verð­laun Nóbels í fyrra á­samt blaða­konunni Mariu Ressa.

Múratov birti mynd af sér á Twitter þar sem hann greindi frá á­rásinni. Hann hefur verið afar gagn­rýninn á ríkis­stjórn Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta og virðast til­drög á­rásarinnar vera skrif hans í gegnum tíðina.

Múratov segir að maður hafi gengið að honum með málningar­fötu og skvett yfir hann rauðri málningu. „Múratov, þetta er fyrir strákana okkar,“ segir Múratov að maðurinn hafi sagt – lík­lega vísun í rúss­neska her­menn sem nú eru í Úkraínu.

Múratov var færður undir læknis­hendur þar sem málning var meðal annars skoluð úr augum hans.

Nova­ya Gazeta er eitt stærsta ó­háða blað Rúss­lands en á dögunum var til­kynnt að hlé yrði gert á út­gáfu þess, en miðillinn hafði fengið að­varanir vegna skrifa sinna frá opin­berri stofnun sem hefur eftir­lit með fjöl­miðlum í landinu.