Þrír vísinda­menn sem rann­sakað hafa breytingar í flóknum eðlis­fræði­legum kerfum og á­hrif þess á lofts­lags­breytingar deila Nóbels­verð­laununum í eðlis­fræði fyrir árið 2021.

Hinn japansk-ameríski Syukuro Mana­be við Princet­on há­skóla í Banda­ríkjunum, Þjóð­verjinn Klaus Hasselmann við Max Planck stofnunina í Ham­burg og Ítalinn Giorgio Parisi við Sapi­enza há­skólann í Róm hlutu verð­launin í sam­einingu í morgun.

Helmingur verð­launa­fésins, sem er 10 milljónir sænskra króna eða and­virði rúm­lega 146 milljóna ís­lenskra króna, skiptist á milli Mana­be og Hasselman fyrir vinnu þeirra við að smíða módel af lofts­lagi jarðar og spá á­reiðan­lega fyrir um hnatt­ræna hlýnun. Hinn helmingurinn fer til Parisi fyrir að upp­götva „duldar reglur“ á bak við það sem virðist vera til­viljana­kenndar hreyfingar og hringiður í gösum og vökvum.

„Flókin kerfi ein­kennast af handa­hófs­kennd og ó­reiðu og eru erfið að skilja. Verð­laun þessa árs viður­kenna nýjar að­ferðir við að lýsa þeim og spá fyrir um lang­tíma­hegðun þeirra,“ segir í yfir­lýsingu Nóbels­nefndarinnar.

Nóbels­verð­launin í eðlis­fræði eru önnur verð­launin sem eru veitt í þessari viku eftir að Banda­ríkja­mennirnir David Julius og Ardem Pata­poutian hlutu Nóbels­verð­launin í læknis­fræði fyrir upp­götvanir sínar sem lýsa hvernig líkaminn nemur hita­stig og snertingu, svo­kallað líkams­skyn.

Líkt og síðasta ár verður engin verð­launa­at­höfn í Stokk­hólmi vegna á­hrifa Co­vid-19 far­aldursins. Verð­launa­hafarnir munu þess í stað taka við verð­laununum í sínu eigin heima­landi.

Á næstu dögum verða einnig veitt Nóbels­verð­laun í efna­fræði, bók­menntum, hag­fræði og friðar­verð­launin.