Sænska vísindaakademían tilkynnti í gær að þrír vísindamenn deili verðlaunum í eðlisfræði fyrir tvær ólíkar uppgötvanir: Fyrstu uppgötvun fjarreikistjörnu og víðtækar kenningar um eðli alheimsins.

Þrír vísindamenn deila Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði fyrir tvær ólíkar uppgötvanir. Annars vegar hljóta þeir Michel Mayor og Didier Queloz verðlaunin fyrir uppgötvun á plánetu á braut um fjarlæga stjörnu og hins vegar hlýtur James Peeble verðlaunin fyrir kennilegar uppgötvanir á eðli alheimsins.

Árið 1995 urðu svissnesku stjörnufræðingarnir og prófessorar við Háskólann í Genf, Michel Mayor, sem er 77 ára prófessor og Didier Queloz, 53 ára, fyrstir til að finna reikistjörnu utan okkar sólkerfis. Stjarnan sem er í fimmtíu ljósára fjarlægð frá jörðu er kölluð Pegasi 51b. Hún er gasrisi sem gengur þétt um móðurstjörnu sína.

Eftir þetta hafa verið uppgötvaðar fjögur þúsund fjarreikistjörnur á braut um fjarlægar stjörnur, flestar þeirra gerólíkar jörðinni og því er þekkist í okkar sólkerfi. Þetta er undarlegur nýr heimur sem enn er verið að uppgötva, með ótrúlegum fjölda stærða, gerða og sporbrauta. Þar er sums staðar hitastig, þrýstingur og efnasamsetningar sem gætu verið undirstaða lífs.

Kanadíski eðlisfræðingurinn James Peebles, sem er 84 ára heiðursdoktor við Princeton-háskóla, hefur aukið skilningi eðlisfræðinga á sögu alheimsins allt frá Miklahvelli fyrir 14 milljörðum ára til okkar tíma. Rannsóknir hans veita innsýn í eðli alheimsins og hvernig 95 prósent alls efnis alheims eru dularfull hulduefni og hulduorka, það er orka hulin okkur mönnum, sem talið er að tómarúmið geymi og valdi hröðun í útþenslu alheimsins.

Vísindamennirnir þrír munu deila á milli sín verðlaunafénu sem nemur níu milljónum sænskra króna, eða um 113 milljónum íslenskra króna.