Þegar nýr Mini kemur á markað mun hann líkt og Peugeot 208 verða boðinn með annað hvort bensínvél eða rafmótor. Það er þó ekki það eina því að von er á bílnum í þriggja dyra útgáfu aftur. Raf bílaútgáfan verður smíðuð í Kína á nýjum undirvagni sem er í þróun hjá BMW og Great Wall-bílaframleiðandanum. Bensínútgáfan verður eins í öllum málum en byggð á undirvagni frá BMW og sett saman í verksmiðju merkisins í Oxford.

Eins og sjá má á myndinni er þriggja dyra útgáfan nógu lítil til að geta keppt við smábíl eins og Fiat 500. Þó að bíllinn virðist vera nokkuð tilbúinn að sjá er dulbúningurinn góður og hlutir eins og ljós og loftinntök í raun og veru sett utan á dulbúninginn til að villa um fyrir þeim sem horfir. Auk þess vantar sílsana á bílinn og rétt útlit grillsins. Þrátt fyrir það sést að axlarlínan er hærri en áður og gluggarnir mjórri sem gefur til kynna bíl með lága loftmótstöðu. Hjólin eru líka utar sem þýðir að hjólhafið verður jafnvel það sama og áður. Að innan verður mælaborðið í bogadregnum skjá fyrir ofan stýrið.