Nýlega náðust fyrstu njósnamyndir af bílnum án nokkurs felubúnaðar. Helstu breytingar verða á afturenda bílsins en þar koma ný afturljós í enn þynnri ljósarönd. Eini felubúnaður bílsins á myndinni var yfir hliðum afturljósanna svo búast má við breytingum þar. Einnig má sjá breytingar á fjögurra stúta pústkerfinu sem er innfellt í stuðarann. Eins og tilkynnt hefur verið um tvinnbúnað í Carrera 911 verður sams konar tvinnbúnaður í 911 Turbo. Ekki er um tengiltvinnbúnað að ræða en öllu heldur rafmótor sem kemur aftan við átta þrepa sjálfskiptinguna. Rafmótorinn mun fá orku frá lítilli rafhlöðu og aðallega auka við upptak bílsins en hjálpa þó örlítið upp á eyðslutölur. Núverandi vélbúnaður Turbo S er 641 hestafls sex strokka boxer-vél með tveimur forþjöppum en búast má við að talan hækki eitthvað með tvinnbúnaði.