Þing­maðurinn Njáll Trausti Frið­berts­son mun leiða lista Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­austur­kjör­dæmi eftir próf­kjör flokksins í gær. Njáll hlaut 816 at­kvæði í fyrsta sæti og hafði þar með betur Gauta Jóhannes­syni, for­seta bæjar­stjórnar Múla­þings, sem gaf einnig kost á sér í odd­vita­sætið. Lög­fræðingurinn Berg­lind Ósk Guð­munds­dóttir verður í öðru sæti á lista flokksins.

Greidd at­kvæði voru 1.570. Auðir og ó­gildir 71. 1.499 gild at­kvæði.

Loka­tölur:

  1. Njáll Trausti Frið­berts­son með 816 at­kvæði í 1. sæti
  2. Berg­lind Ósk Guð­munds­dóttir með 708 at­kvæði í 1.-2. sæti
  3. Gauti Jóhannes­son með 780 at­kvæði í 1.-3. sæti
  4. Berg­lind Harpa Svavars­dóttir með 919 at­kvæði í 1.-4. sæti
  5. Ragnar Sigurðs­son með 854 at­kvæði í 1.-5. sæti

Greint var frá því í síðustu viku að hin svo­kallaða skæru­liða­­deild Sam­herja hafi ætlað að reyna að hafa á­hrif á fram­­boðs­­mál Sjálf­­stæðis­­flokksins í kjör­­dæminu. For­stjóri Sam­herja hugnaðist ekki hug­myndin um Njál Trausta sem odd­vita.

Í frétt Kjarnans um málið kom fram að Páll Stein­gríms­son skip­stjóri og Arna Bryn­dís McClu­re, yfir­lög­fræðingur Sam­herja, hafi rætt saman um komandi próf­kjör flokksins í kjör­dæminu þann 21. mars síðast­liðinn.

Er Páll sagður greina þar frá sam­tali sem hann átti við Þor­stein Má Bald­vins­son, for­stjóra Sam­herja, um pólitík þar sem hann, sam­kvæmt frétt Kjarnans, segir: „Hann eins og ég vill ekki sjá Njáll í efsta­sæti.“ Arna Bryn­dís er sögð svara því til að „enginn“ vilji Njál í efsta sætið og kveðst Páll ætla að ræða við nokkra á­hrifa­menn í flokknum um málið.