Þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi eftir prófkjör flokksins í gær. Njáll hlaut 816 atkvæði í fyrsta sæti og hafði þar með betur Gauta Jóhannessyni, forseta bæjarstjórnar Múlaþings, sem gaf einnig kost á sér í oddvitasætið. Lögfræðingurinn Berglind Ósk Guðmundsdóttir verður í öðru sæti á lista flokksins.
Greidd atkvæði voru 1.570. Auðir og ógildir 71. 1.499 gild atkvæði.
Lokatölur:
- Njáll Trausti Friðbertsson með 816 atkvæði í 1. sæti
- Berglind Ósk Guðmundsdóttir með 708 atkvæði í 1.-2. sæti
- Gauti Jóhannesson með 780 atkvæði í 1.-3. sæti
- Berglind Harpa Svavarsdóttir með 919 atkvæði í 1.-4. sæti
- Ragnar Sigurðsson með 854 atkvæði í 1.-5. sæti
Greint var frá því í síðustu viku að hin svokallaða skæruliðadeild Samherja hafi ætlað að reyna að hafa áhrif á framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Forstjóri Samherja hugnaðist ekki hugmyndin um Njál Trausta sem oddvita.
Í frétt Kjarnans um málið kom fram að Páll Steingrímsson skipstjóri og Arna Bryndís McClure, yfirlögfræðingur Samherja, hafi rætt saman um komandi prófkjör flokksins í kjördæminu þann 21. mars síðastliðinn.
Er Páll sagður greina þar frá samtali sem hann átti við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, um pólitík þar sem hann, samkvæmt frétt Kjarnans, segir: „Hann eins og ég vill ekki sjá Njáll í efstasæti.“ Arna Bryndís er sögð svara því til að „enginn“ vilji Njál í efsta sætið og kveðst Páll ætla að ræða við nokkra áhrifamenn í flokknum um málið.