Isavia mun una niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála og stefnir að því að ná sátt á meðan Samkeppniseftirlitið lýkur málsmeðferð vegna gjaldtöku fyrirtækisins á ytri hópbifreiðastæðum við Keflavíkurflugvöll.

Þann 1. mars í ár hóf Isavia gjaldtöku á rútustæðunum og var ætlun fyrirtækisins að „styrkja óflugtengda tekjustofna“ til að kosta uppbyggingu á flugvellinum. 17. júlí tók Samkeppniseftirlitið (SKE) bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia var gert að stöðva tímabundið gjaldtöku.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki skuli fella úr gildi bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins um gjaldtöku á ytri hópbifreiðastæðum við Keflavíkurflugvöll. 

Þá telur nefndin að sennilegt sé að gjaldtakan hafi verið óhófleg og ólögmæt og brýnt hafi verið að bregðast við henni.

Í yfirlýsingu frá Isavia, sem send var út fyrir stuttu, kemur fram að niðurstaða áfrýjunarnefndar sé til skoðunar hjá fyrirtækinu og að þeirri athugun lokuð tekur fyrirtækið ákvörðun um næstu skref.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að Samkeppniseftirlitið hafi á seinni stigum málsins lýst yfir að Isavia sé skylt að halda gjaldtöku áfram með breyttu verðlagi. Undir það tekur áfrýjunarnefndin í sínum úrskurði. 

Það sé því ljóst að í máli Samkeppniseftirlitsins um gjaldtöku á hópferðafyrirtæki sem sinna akstri til og frá flugvellinum er ekki deilt um hvort rétt sé að taka gjald fyrir afnot af ytri hópbifreiðastæðum við Keflavíkurflugvöll heldur hvert gjaldið eigi að vera og hvaða forsendur liggja til grundvallar gjaldinu, að því sem fram kemur í yfirlýsingu Isavia. 

„Þessi niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála er nú til skoðunar hjá Isavia og út frá þeirri athugun verður tekin ákvörðun um næstu skref,“ er haft eftir Hlyni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs Isavia. 

„Það er markmið félagsins að tryggja jafnan samkeppnisgrundvöll fyrir öll þau fyrirtæki sem bjóða upp á samgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli og verður það leiðarljós okkar í þeirri vinnu sem nú er fram undan. Við munum því una þessari niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og vinna að því að ná sátt á meðan Samkeppniseftirlitið lýkur sinni málsmeðferð vegna gjaldtökunnar.“