Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti níu COVID-19 flutningum síðasta sólarhringinn. Er þar um að ræða útköll á sjúkrabíla vegna einstaklinga með staðfest smit eða þar sem grunur er um smit.

Í heildina voru sjúkrabílar slökkviliðsins kallaðir út í 71 skipti. Þar af voru 28 forgangsverkefni. Verkefni tengd slökkvi- og björgunarstörfum voru níu talsins.

Nokkuð hefur verið um verkefni tengd COVID-19 hjá sjúkraflutningamönnum að undanförnu eftir að smitum tók aftur að fjölga í samfélaginu.

Flokkast slíkir flutningar einnig sem COVID-19 verkefni ef sjúklingur er fluttur vegna annars heilsufarslegs vandamáls.

Ákveðin þáttaskil voru síðasta þriðjudag þegar einstaklingur með staðfest smit var fluttur með sjúkrabíl.

Sagði aðstoðarvarðstjóri þá í samtali við Fréttablaðið að þetta hafi verið í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem slíkt mál hafi komið inn á borð slökkviliðsins.

COVID-19 flutningar kalla á auknar sóttvarnarráðstafanir á borð við sótthreinsun og að sjúkraflutningamenn beri hanska, grímu og jafnvel sloppa.