Níu tígris­dýrum hefur verið bjargað nær dauða en lífi úr höndum tveggja vöru­bíl­stjóra sem ætluðu að flytja þá í dýra­garð í Rúss­landi. Þau dvelja nú í dýra­garði í Pól­landi þar sem hlúð er að þeim.

Í um­fjöllun Daily Mail um málið kemur fram að ó­víst sé hver eigi dýrin eða hvaðan þau koma. Vitað er að ferða­lag þeirra hófst þann 22. októ­ber síðast­liðinn og hófst það á Ítalíu.

Keyrt var með dýrin í einum vöru­bíl og þeim haldið í litlum búrum og þeim gefið lítið sem ekkert að borða og drekka. Talið er að mennirnir hafi ætlað sér að græða með sölu þeirra til dýra­garðs í Da­gestan í Rúss­landi. Yfir­völd í Pól­landi hyggjast sækja mennina tvo til saka fyrir van­rækslu.

Í fréttinni kemur fram að for­svars­menn dýra­garðsins í Poznan þar sem nú er hlúið að þeim hafi lýst þeim sem vatns­þurfa, þreyttum, þau hafi verið með bruna­sár og þá hafi þau verið um­lukt eigin saur og þvagi. Þau höfðu enda verið marga daga í bílnum án nauð­synja.

Segja for­svars­mennirnir að dýrin verði send til Spánar eftir að hlúð hefur verið að þeim í sér­staka dýra­verndunar­mið­stöð. Einungis 3200 til 3900 dýr lifa eftir í náttúrunni og er öðrum 7000 haldið föngnum, aðal­lega í Asíu.

Búrin sem dýrunum var haldið í.
Fréttablaðið/Getty
Dýrin voru afar illa haldin.
Fréttablaðið/Skjáskot