Níu Palestínumenn létust í gær eftir árás ísraelska hersins í bænum Jenín á Vesturbakkanum. Árásin var sú mannskæðasta í Palestínu í mörg ár.
Að sögn ísraelska hersins höfðu hermenn umkringt byggingu til að handtaka íslamska hryðjuverkamenn sem hygðust skipuleggja stórárásir. Ísraelski herinn hefur sótt hart að meintri hryðjuverkastarfsemi síðan í apríl á seinasta ári.
Forseti Palestínu hefur hins vegar ásakað herinn um fjöldamorð, en Jenín hefur verið miðpunktur fyrir ítrekuð átök undanfarna mánuði.
Meira en 150 Palestínumenn létu lífið á Vesturbakkanum árið 2022 og voru nær allir drepnir af ísraelska hernum.