Atvikið átti sér stað í Perm State háskólanum þar sem um tuttugu þúsund nemendur eru skráðir til náms. Skólinn er í borginni Perm sem er staðsett í miðju Rússlandi með tæplega milljón íbúa.

Á samskiptamiðlum sáust nemendur brjóta sér leið út og aðra stökkva af fyrstu hæð skólans til að flýja árásina. Aðrir notuðust við stóla til að loka skólastofunum.

Talsmaður lögreglu staðfestir í samtali við erlenda fjölmiðla að lögreglunni hafi tekist að ráða árásarmanninum bana.

Árásarmaðurinn sem var átján ára gamall birti myndir á samskiptamiðlum sínum fyrr um morguninn vopnaður þar sem hann lýsti því yfir að hann væri að fara að láta draumana rætast en búið er að fjarlægja færsluna.

Þetta er önnur skotárásin sem á sér stað í rússneskum háskóla það sem af er árs. Í vor létust níu nemendur í Kazan þegar árásarmaður hóf skothríð í skólanum sínum.