Níu manns hafa látist og fjögurra er saknað vegna stormsins Gloriu sem geisar nú á austan­verðum Spáni. Gríðar­stórar öldur allt að 14 metra háar hafa dunið á hafnar­bökkunum og flætt inn í borgir. Yfir 220 þúsund manns eru raf­magns­laus í Tarragona héraðinu og tals­vert tjón hefur orðið í Anda­lúsíu og Valensíu.

Talið er að fjórir hafi látist af völdum of­kælingar í storminum. Ein kona lést þegar húsið hennar hrundi og einn maður lést eftir að þak­hella fauk á höfuð hans. Bóndi í Almería lést eftir að hafa lokast inni í gróður­húsi í élja­gangi. Talið er að maður hafi drukknað ná­lægt Benidorm þar sem hann fannst látinn á flóða­svæði. Þá varð einn maður fyrir bíl þegar hann var að setja keðjur á dekk sín vegna mikillar snjó­komu á svæðinu.

Björgunar­sveitir leita enn fjögurra ein­stak­linga sem er saknað en vitað er að einn þeirra er 25 ára Breti sem hvarf á­samt mótor­hjóli sínu á eyjunni I­biza.

Einn stærsti stormur aldarinnar

Yfir­maður strand­þjónustunnar í Barcelona sagði að stormurinn væri versti sjávar­stormurinn síðan 2003 og lík­lega einn sá versti á þessari öld. Ó­trú­legt magn af sæ­froðu flæddi um götur sjávar­þorpsins Tossa De Mar, sem er í ná­grenni við Barcelona, með þeim af­leiðingum að froðan náði í­búum upp að mitti.

Tals­vert hefur sljákkað í storminum í dag en enn eru appel­sínu­gular við­varanir í gildi á norð­austan­verðum Spáni og á Balera eyjum.