Níu innanlandssmit greindust í gær og er nú 91 einstaklingur í einangrun með virkt smit hér á landi. 746 eru nú í sóttkví og fjölgaði um 12 milli daga.

Einn var með jákvætt sýni við landamæraskimun en reyndist vera með mótefni.

436 sýni voru greind hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær og 1.131 landamærasýni. 179 sýni voru greind hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Boðað verður til upplýsingafundar klukkan 14 í dag.

Þar mun Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Alma D. Möller, landlæknir, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, fara yfir stöðu mála og framgang faraldursins.

Gestur fundarins verður Agnes Agnarsdóttir, fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.