Þrír til við­bótar hafa lagst inn á gjör­gæslu vegna CO­VID-19 á síðasta sólar­hring. Alls liggja nú níu á deildinni með kóróna­veiru­smit og eru sjö þeirra í öndunar­vél.

Þetta stað­festi Alma Dag­björt Möller land­læknir á upp­lýsinga­fundi rétt í þessu. Sjö lögðust þá inn á Land­spítalann á síðasta sólar­hring og eru 25 smitaðir inni á spítalanum.

897 eru í eftir­liti hjá Co­vid-deild spítalans og þar af eru 66 börn.

Stað­­fest kóróna­veiru­­smit á Ís­landi eru orðin 1.020. Síðasta sólar­hring greindust 57 smit, nokkuð færri en hafa greinst síðustu tvo daga. Alma sagði að far­aldurinn væri í hægum vexti hér á landi.