Tæp­lega helmingur lands­manna segir öruggt að hann þægi bólu­setningu gegn CO­VID-19 þegar byrjað verður að bjóða upp á hana en þetta kemur fram í nýjasta Þjóðar­púls Gallup. Könnunin var gerð dagana 3. til 10. septem­ber og voru 1.591 manns í úr­takinu.

Líkt og áður hefur verið greint frá keppast þjóðir víðs vegar um heim við að þróa bóluefni við kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum en þrjú bóluefni hafa lofað góðu síðastliðnar vikur. Það eru bólu­efni Moderna og National Insti­tute of Health, bólu­efni Pfizer og BioN­Tech, og bólu­efni AstraZene­ca og Ox­ford há­skólans. Vonast er til að bóluefni verði tilbúið fyrir lok árs.

Íslendingar líklegastir til að þiggja bóluefni á eftir Kínverjum

Gallup vísar til al­þjóð­legrar könnunar rann­sóknar­fyrir­tækisins Ipsos sem gerð var í 27 löndum ný­lega en niður­stöður könnunarinnar benda til þess að al­mennt myndu þrír af hverjum fjórum þiggja bólu­setningu. Ís­lendingar virðast vera á meðal þeirra þjóða sem eru lík­legastir til að þiggja bólu­setningu en að­eins Kín­verjar virðast lík­legri en Ís­lendingar.

Níu af hverjum tíu Ís­lendingum sögðu lík­legt að þeir myndu þiggja bólu­setningu en alls sögðust 48,8 prósent vera öruggir á að þeir myndu þiggja bólu­setningu, 29,1 prósent sögðu það mjög lík­legt og 12,2 prósent sögðu það frekar lík­legt.

80 prósent vilja bíða eftir að meiri reynsla verði komin

Innan við 3 prósent sögðu öruggt að þeir myndu ekki þiggja bólu­setningu, rúm­lega eitt prósent sögðu það mjög ó­lík­legt og tvö prósent sögðu það frekar ó­lík­legt. Um 4,4 prósent sögðu það hvorki lík­legt né ó­lík­legt að þau myndu þiggja bólu­setningu.

90 prósent segja líklegt eða öruggt að þau myndu þiggja bóluefni.
Mynd/Gallup

Af þeim sem sögðu það ó­lík­legt að þau myndu þiggja bólu­setningu sögðust um 80 prósent vilja bíða eftir að meiri reynsla verði komin á bólu­setningu og mögu­legar auka­verkanir, 8 prósent sögðust vera al­mennt á móti bólu­setningum, ríf­lega tvö prósent segjast hafa greinst með sjúk­dóminn og þeir séu með mót­efni og tæp­lega einn af hverjum tíu nefnir aðrar á­stæður.

Kjósendur Vinstri grænna líklegastir til að þiggja bóluefni

Þátt­tak­endur í könnuninni voru einnig spurðir út í hvaða flokk þeir væru lík­legastir til að kjósa ef kosið yrði til Al­þingis í dag en mark­tækur munur var á svörum fólks eftir því hvaða flokk það kysi. Þeir sem sögðust lík­legir til að kjósa Vinstri græn voru lík­legastir til að þiggja bólu­setningu á meðan þeir sem sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu voru ó­lík­legastir.

Mark­tækur munur var á svörum fólks eftir því hvaða flokk það kysi.
Mynd/Gallup