Um þriðjungur Ís­lendinga ber mikið traust til þjóð­kirkjunnar. Það er svipað hlut­fall og í fyrra en þá lækkaði það frá fyrri mælingum frá 43 prósent árið 2017 í 33 prósent. Frá þessu er greint í nýjum Þjóðar­púlsi Gallups. Þar kemur einnig fram að nær þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til þjóð­kirkjunnar og um þriðjungur ber lítið traust til hennar.

Ef litið er til þróunar á hlut­falli þeirra sem bera full­komið eða mikið traust til Þjóð­kirkjunnar í gegnum árin má sjá að allt frá árinu 2008 hefur það mælst undir 50 prósentum. Lægst var hlut­fallið í febrúar árið 2012.

Í gögnum Gallup má sjá að konur bera að­eins meira traust til þjóð­kirkjunnar en karlar, og eldra fólk ber að jafnaði meira traust til hennar en yngra fólk. Minnst traust bera þau til kirkjunnar sem eru á aldrinum 30 til 39 ára en alls 52 prósent þeirra segjast bera lítið traust til kirkjunnar.

Í­búar lands­byggðarinnar bera einnig meira traust til þjóð­kirkjunnar en í­búar höfuð­borgar­svæðisins. Það er munur eftir því hvað fólk kysi til Al­þingis ef kosið yrði í dag, en traustið mælist mest hjá þeim sem kysu Fram­sóknar­flokkinn og Sjálf­stæðis­flokkinn en minnst hjá þeim sem kysu Pírata. Alls 64 prósent þeirra kjós­enda segjast bera lítið traust til kirkjunnar.

Meira en helmingur landsmanna vilja aðskilnað ríkis og kirkju.

Karlar ánægðari með störf biskups en konur

Í Þjóðar­púlsi var einnig spurt um á­nægju um störf biskups Ís­lands, Agnesar M. Sigurðar­dóttur. Að­eins sögðust 19 prósent vera á­nægð með störf hennar. Alls eru það fimm prósentum fleiri en árið áður og er það í fyrsta skipti frá því að mælingar hófust sem að á­nægja eykst á milli ára. Á­nægja með störf biskups hefur þó ekki mælst eins lítil, ef ekki er tekið með síðasta ár, frá því árið 2011, en þá var Karl Sigur­björns­son enn biskup.

í helmingur þeirra sem svöruðu virðast þó hafa litla skoðun á störfum biskups og er hvorki á­nægður né ó­á­nægður með störf biskups en nær þriðjungur er ó­á­nægður með störf Agnesar.

Karlar eru lík­legri en konur til að vera á­nægðir með störf biskups. Það er líka munur eftir aldri og er fólk yngra en 30 ára á­nægðast með störf biskups. Í­búar lands­byggðarinnar eru á­nægðari með störf biskups en í­búar höfuð­borgar­svæðisins. Loks er munur eftir því hvað fólk kysi til Al­þingis ef kosið yrði í dag, en þeir sem kysu Fram­sóknar­flokkinn eru á­nægðastir með störf biskups og þeir sem kysu Pírata ó­á­nægðastir.

55 prósent vilja aðskilnað ríkis og kirkju

Í þjóðar­púlsi var einnig spurt um við­horf Ís­lendinga til þess hvort ætti að skilja að ríki og kirkju og eru alls 55 prósent sam­mála því. Ef litið er til þróunar þessa hlut­falls í gegnum árin þá má sjá að allt frá árinu 2002 hefur það haldist svipað. Hæst mældist það árið 2010 í 61 prósent og lægst 2007 þegar það var 45 prósent. Alls eru 23 prósent and­víg að­skilnaði og 21 prósent hvorki né.

Þegar gögnin eru skoðuð nánar má sjá að karlar eru hlynntari að­skilnaði ríkis og kirkju en konur, og fólk er hlynntara að­skilnaði eftir því sem það er yngra. Í­búar höfuð­borgar­svæðisins eru hlynntari að­skilnaði ríkis og kirkju en í­búar lands­byggðarinnar.

Þá er fólk einnig hlynntara að­skilnaði eftir því sem það hefur menntað sig meira, en alls eru 62 prósent þeirra sem eru með há­skóla­próf hlynnt að­skilnaði.

Tals­verður munur er á milli fólks eftir því hvað það myndi kjósa til Al­þingis. Sem dæmi segja 90 prósent kjós­enda Pírata að þau séu hlynnt að­skilnaði og 80 prósent kjós­enda Við­reisnar. Lík­legust til að vera and­víg að­skilnaði eru kjós­endur Fram­sóknar- og Mið­flokksins.

Hægt er að kynna sér niður­stöður nánar hér á heima­síðu Gallup hér.