Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk nítján tilkynningar um líkamsárásir og fór í fjórtán útköll vegna heimilisofbeldis um verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Fram kemur að tvær af þessum nítján líkamsárásum hafi verið alvarlegar.

Greint er frá því að lögreglunni hafi verið tilkynnt um tíu innbrot, og að helmingur þeirra hafi verið í bifreiðar og geymslur, og ein í íbúðarhúsnæði. Þá hafi tvö rán verið framin.

Einnig er greint frá málum er varða umferðarlagabrot. 36 ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu.

Þá var á fjórða tug ökumanna staðinn að hraðakstri á helstu vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu, en fram kemur að tveir þeirra hafi verið á „ofsahraða“ sem er skilgreindur sem tæplega 160 kílómetra hraði. Þeir ökumenn munu báðir sæta sviptingu ökuréttinda og borga rúmlega 200 þúsund krónur í sekt.

Þá er tekið fram að afskipti hafi verið höfð að hátt í fimmtíu ökutækjum sem var lagt ólögleg.