Það sem af er ári hafa nítján einstaklingar leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, vegna hópnauðgunar, það er, þar sem tveir eða fleiri eru gerendur. Allt árið í fyrra leituðu þrettán einstaklingar á neyðarmóttökuna vegna hópnauðgana og árið 2019 voru þeir sex.

Hrönn Stefánsdóttir, hjúkrunar­fræðingur og verkefnastjóri á neyðarmóttökunni, segir ógnvænlegt hversu mikið þessum tilfellum hafi fjölgað. Allt kynferðisofbeldi veki upp mikinn ótta og áfallaviðbrögð hjá brotaþolum, en þegar um hópnauðganir sé að ræða séu áfallaviðbrögðin sérlega mikil, allt vald sé tekið af brotaþolum.

Spurð hvort um stóra hópa gerenda sé að ræða segir Hrönn dæmi um það. „Það er misjafnt, stundum eru jafnvel þátttakendur sem fylgjast með og þá eru þeir meðsekir,“ segir hún.

Alls hefur 131 mál komið inn á neyðarmóttökuna það sem af er ári og eru málin nú þegar orðin fleiri en allt árið í fyrra, þá voru þau 130 talsins, en aðeins 43 mál sem komið hafa inn í ár hafa verið kærð til lögreglu.

Kynferðisbrotum sem framin eru af vini eða kunningja brotaþola hefur farið fjölgandi milli ára og voru þau 61 talsins árið 2020 miðað við 49 ári fyrr. Það segir Hrönn eina ástæðu þess að svo fá mál endi á borði lögreglu. „Það getur gert það enn erfiðara fyrir brotaþola að kæra þegar um er að ræða vin eða kunningja, eða jafnvel fjölskyldumeðlim,“ segir hún.

„Svo er oft spurt að því úti í samfélaginu af hverju fólk kærir ekki eða fer „réttu leiðina“, hún er bara ekkert mjög auðveld. Jafnvel þó að fólk kæri eru ekki nema 12-20 prósent sem fara í ákæru, það er verið að fella niður mál þó að fólk hafi farið allar réttu leiðirnar,“ segir hún.

Á neyðarmóttökunni segir Hrönn að lögð sé áhersla á að hlúa að líkamlegum og andlegum áverkum kynferðisbrotaþola, þar séu tekin réttarlæknisfræðileg sýni, skýrslur og myndir. Sýnin sé þó einungis hægt að geyma í eitt ár frá því þau eru tekin. Áður hafi þau aðeins verið geymd í níu vikur.

Flest þeirra sem leituðu á neyðarmóttökuna í fyrra voru 18-25 ára, 52 einstaklingar. 32 einstaklingar voru 26-35 ára og nítján voru 16-17 ára. Sex einstaklingar sem þangað leituðu voru 10-15 ára gamlir.