Svo vel gengur hjá Nissan að selja nýja kynslóð af Leaf rafmagnsbíl sínum að á 12 mínútna fresti tekur fyrirtækið á móti nýrri pöntun í bílnum. Nissan hefur tekið á móti 19.000 pöntunum á Nissan Leaf í Evrópu síðan pantanabækurnar voru opnaðar og alls hefur Nissan borist 50-60.000 pantanir í bílinn í heiminum öllum. Í fyrra var Renault Zoe mest seldi rafmagnsbíll í Evrópu með 31.300 bíla selda, en hætt er við því í ár að Nissan Leaf muni slá Renault Zeo við í sölu í álfunni. Af þessum 19.000 bílum sem pantaðir hafa verið í Evrópu komu 13.000 pantanir í bílinn áður en hann var sýndur. 

Nissan Leaf hefur frá því hann kom fyrst á markað árið 2010 verið seldur í yfir 300.000 eintökum og með því er hann mest seldi rafmagnsbíll sögunnar. Á þessum tíma hefur Nissan Leaf bílum verið ekið yfir 4 milljarða kílómetra og með því komið í veg fyrir mikinn útblástur hefðbundinna brunabíla. Pantanir á nýjum Nissan í Leaf eru einnig margar hér á landi og samkvæmt síðustu heimildum voru pantanir á honum komnar yfir 160.