Nissan ætlar ekki að láta Ford eiga sviðið er kemur að töffaralegum og torfæruhæfum pallbílum með sínum Raptor útgáfum af Ranger og F-150 bílum og ætlar að útbúa Navara pallbíl sinn í slíkri útgáfu. Nissan hefur nú þegar sótt um einkaleyfi á nafninu Navara Off-Roader og bendir það mjög sterklega til þess að bíllinn sé á leiðinni. Í slíkri útgáfu verður öflugri vél í bílnum og þá líklega 3,0 lítra forþjöppudrifin dísilvél sem einnig má finna í Mercedes Benz X-Class pallbílnum, en sá bíll er í grunninn sami bíll og Navara. 

Þessi vél skilar 190 hestöflum og 500 Nm togi og yrði Off-Roader Navara því samt aflminni en Ford Ranger Raptor sem er með 210 hestafla vél. Ford Ranger Raptor á að koma á markað í enda þessa árs og víst er að Nissan vill ekki koma fram með sína Off-Roader útgáfu mikið seinna. Það er greinilega mikið að gerast á pallbílamarkaðnum og tilkoma Mercedes Benz X-Class og bílar frá fleiri framleiðendum á næstunni mun gera pallbílaflóruna fjölbreytta á næstunni.