Nýrri og langdrægari gerð Nissan Leaf hefur verið einkar vel tekið og selst nú eintak af bílnum á 10 mínútna fresti. Í ár hafa selst 43.000 Leaf bílar bara í Evrópu. Ekki slæmt í ljósi þess að Nissan hóf sölu þessarar nýju gerðar í febrúar. Í Bandaríkjunum hafa selst 10.686 Leaf bílar á fyrstu 9 mánuðum ársins. 

Nissan Leaf er söluhæsti rafmagnsbíll Evrópu og þó svo allar gerðir tengiltvinnbíla séu meðtaldar er Leaf samt söluhæstur. Hann er auk þess söluhæsta eina bílgerðin í Noregi. Nissan hefur ekki við að framleiða Leaf bílinn en Nissan keppist nú við að auka framleiðslu bílsins til að hafa uppí eftirspurnina og því má búast við því að salan verði enn meiri á næstunni. Mjög margar pantanir liggja fyrir hérlendis á nýjum Nissan Leaf og biðlistinn langur.