Með Nissan Ariya má segja að Nissan Leaf og Qashqai hafi runnið saman í einn bíl, en hann var frumsýndur á netinu í gær. Nissan kallar hann „Coupé Crossover“ sem þýða mætti sem sportjeppling. Hann er mjög líkur tilraunabílnum sem sýndur var í fyrra á bílasýningunni í Tokyo, en hann er samt nær X-Trail að stærð, en Qashqai. Að framan eru 20 díóðuljós allsráðandi og eiga að undirstrika að um 100% rafmagnsbíl sé að ræða.

Bíllinn kemur á nýja CMF-EV undirvagninum sem þróaður er í samstarfi við Renault og Mitsu­bishi. Hann verður boðinn bæði með framdrifi og fjórhjóladrifi. Grunngerðin með framdrifi eingöngu verður 215 hestöfl og fer í hundraðið á 7,5 sekúndum. Sú gerð verður með 65 kWst rafhlöðu sem dugar fyrir 375 km akstur, samkvæmt WLTP-staðlinum.

Önnur framdrifsútgáfa verður með 90 kWst rafhlöðu og er 239 hestöfl, en hann fær 500 km drægi. Þrjár fjórhjóladrifsútgáfur verða í boði, 275 hestafla með 63 kWst rafhlöðu og 340 km drægi, en sú útgáfa er 5,9 sekúndur í hundraðið. Öflugasta útfærslan er 389 hestöfl og skilar 600 Newtonmetra togi. Hún fær 87 kWst rafhlöðu með 400 km drægi, en upptakið fer niður í 5,1 sekúndu í hundraðið. Von er á bílnum á markað í Evrópu seint á næsta ári.