Björn Þorláksson
bth@frettabladid.is
Sunnudagur 25. september 2022
07.57 GMT

Reynir Jónasson, harmonikkuleikari og organisti, fagnar níræðisafmæli á morgun, mánudag. Reynir er ekki dæmigert gamalmenni og þakkar daglegum sundferðum og 10 daga viðkomu á Vogi fyrir margt löngu, góða heilsu sína.

Einn dáðasti hljóðfæraleikari landsins fagnar níræðisafmæli. Hóf leik á orgel og saxófón en harmonikkan trompaði allt, jafnvel fyrirhugað dýralæknanám.

„Bara grænt te, takk,“ segir tónlistarmaðurinn Reynir Jónasson og brosir með visku hins aldna manns þegar við hittumst á Mokka og spurt er hvort höfðinginn vilji hressingu.

Hann þarf ekki drykk til að vera hress. Afmælisfögnuður er fram undan og þjóðin samfagnar með tónlistarmanninum, enda hafa Íslendingar notið hljóðfæraleiks Reynis Jónassonar í um átta áratugi.

Reynir er ekki dæmigert gamalmenni. „Gaurinn með taglið?“ sagði ungur maður á Fréttablaðinu þegar ég nefndi nafn Reynis á dögunum. En Reynir er ekki bara gaur með tagl heldur einnig virtúós í leðurjakka, nýgenginn í flokk sósíalista. Vinir hans lýsa honum sem höfðingja og ljúfmenni og sannarlega ögrar hann staðalmyndum um eldri borgara.

Ekkert útvarp á æskuheimilinu

Reynir er Þingeyingur að uppruna. Hann fæddist á Helgastöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, faðir hans var kirkjuorganisti.

„Það var ekkert útvarp heima þannig að aðalafþreyingin fólst í að læra og spila á orgelið,“ segir Reynir um fyrsta neistann.

Það leit út fyrir að Reynir færi í dýralækningar að loknu stúdentsprófi. En listagyðjan sigraði náttúruvísindin. Hann bjó utan landsteinanna um skeið eftir stúdentspróf, sneri heim, bjó á Húsavík í mörg ár og flutti svo til Reykjavíkur. Hann lék með danshljómsveitum á Akureyri, Ingimar og Finni Eydal, Hljómsveit Svavars Gests í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, fór í langt tónleikaferðalag með Hauki Morthens, vann plötu með Bubba Morthens og hefur á löngum köflum verið kórstjóri og organisti í kirkjum.

„Ætli ég þakki það ekki daglegum sundferðum, ég syndi 400 metra hvern einasta morgun og geng daglega úti,“ segir hann, þegar ég nefni að hann komi vel undan allri spilamennskunni.

„Svo skemmdi ekki fyrir þegar ég fór inn á Vog árið 1990 í tíu daga,“ bætir hann við. „Hef ekki drukkið dropa síðan.“

Reynir hefur spilað með svo mörgum þekktum tónlistarmönnum í tímans rás að tæmandi listi myndi þekja heila síðu. Svo nokkrir séu nefndir erum við að tala um Hauk Morthens, Ragga Bjarna, Szymon Kuran og ótal fleiri snillinga. Með sumum spilaði hann áratugum saman. Og oft hefur hann verið fenginn út fyrir landsteinana í hin og þessi gigg.

Stundum þarf ekki annað en nærveruna, segir Reynir, grjótharður og auðmjúkur í senn. Í leðurjakkanum.
Fréttablaðið/Valli

Orgelið næst hjartanu

Harmonikkan hefur borið tónlistargáfu Reynis merki í vel á sjöunda áratug. Fyrsta hljóðfæranám hans var þó á saxófón og Reynir segir að sá skóli hafi nýst sér til að skilja harmonikkuna síðar.

Hann blés ungur fyrst í lúðurinn í Menntaskólanum á Akureyri eftir að hafa spilað frá barnsaldri á orgel heima hjá sér. Ferillinn síðan hefur verið fjölbreyttur, blanda ólíkra hljóðfæra, svo sem harmonikku, píanós og orgels á böllum, tónleikum, við kennslu, skólastjórnun og kirkjustarf, þar sem Reynir hefur starfað bæði sem kórstjóri og organisti.

„Ætli orgelið standi ekki næst hjartanu,“ segir hann, þegar ég reyni að fá hann til að gera upp á milli barnanna sinna. Enda titlar Reynir sig organista í skránni.

Ætli orgelið standi ekki næst hjartanu

Og enn spilar hann opinberlega. Sem dæmi er hann bókaður í gigg á barnaskemmtun í jólaboði forsetaembættisins eftir nokkra mánuði. Þar hefur Reynir mætt með nikkuna allar götur síðan 1984.

Eftir Reyni liggja margar hljómplötur. Spurður um helstu áhrifavalda hvað nikkuna varðar nefnir Reynir Braga Hlíðberg og Gretti Björnsson. Þeir voru að hans sögn á heimsmælikvarða. Við ræðum ýmsar gengnar stjörnur sem enn lifa þó í tónlist sinni.

„Haukur Morthens var skapmikill en ljúfmenni í samstarfi, ég kunni mjög vel við hann.“


Við hittumst oft þegar honum leið illa, sátum kannski lengi saman og þögðum. Sögðum ekki eitt einasta orð lengi. Stundum þarf ekki annað en bara nærveruna


Gert að hætta vegna aldurs

Reynir ber reyndar öllu samferðafólki sínu góða söguna. Hallar ekki orði á nokkurn mann nema kannski prestinn í Neskirkju, sem sagði að vegna aldurs yrði hann að hætta störfum á sama tíma og hann hafði verið féflettur vegna óhappatilviljunar, skrifaði upp á skuldabréf hjá óábyrgum einstaklingi.

Reynir nefnir sérstaklega náið samband milli hans og Szymon Kuran. Szymon var einleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og spilaði um árabil með Reyni á veitingastöðum. Hann svipti sig lífi eftir langvinna baráttu við alvarlegt þunglyndi.

„Við hittumst oft þegar honum leið illa, sátum kannski lengi saman og þögðum. Sögðum ekki eitt einasta orð lengi. Stundum þarf ekki annað en bara nærveruna,“ segir Reynir, sem skilur kúnst þagnarinnar í músíkinni.

Nú er hins vegar gleðistund fram undan. Reynir er að fara að halda afmælisveislu. Níræðisafmæli.

„Það verður opið hús í dag, 25. september, í sal FíH frá klukkan 17-19. Allir eru velkomnir,“ segir Reynir, hinn listræni öldungur.

Athugasemdir