Vísbendingar eru um að nikótínpokar, sem innihalda ekkert tóbak, seljist eins og heitar lummur hérlendis. Pokarnir eru markaðssettir grimmt á vefsíðum og samfélagsmiðlum í aðlaðandi umbúðum og jafnvel með bragðtegundum sem höfða til yngri kynslóða.

Fimm íslenskar sölusíður hafa sprottið upp á síðustu mánuðum. Kársnesskóli sendi forráðamönnum nemenda nýverið tölvupóst þar sem vakin er athygli á hratt vaxandi noktun þessara nikótínpoka sem séu að taka við af veipnotkun á meðal nemenda.

Á vef Tollstjóra kemur fram að heimilt sé að flytja pokana inn svo lengi sem þeir eru ekki markaðssettir sem lyf og á vefsíðu eins söluaðila nikótínpoka er gefið í skyn hann sé að nýta sér glufu í löggjöf og reglugerðum um tóbaksvarnir.

IcePharma flytur inn nikótínvörur sem ætlaðar eru þeim sem vilja hætta að reykja. Vörurnar eru háðar lyfjalögum og því undir ströngu eftirliti. Lilja Dögg Stefánsdóttir, lyfjafræðingur hjá Ice­pharma, segir að það skjóti skökku við að nikótínpokarnir lúti engum lögum eða eftirliti.

„Það eru engin lög sem fjalla um þessa tóbakslausu poka. Búið er að hafa samband við ríkisstofnanir og af svörum þeirra að dæma virðist engin stofnun taka ábyrgð á málinu,“ segir Lilja Dögg.

Hún bendir á að skráð nikótínlyf á markaði séu undir ströngu eftirliti. „Sterkustu lyfin sem við flytjum inn eru með 4 mg af niktótíni í hverjum skammti. Sterkustu nikótínpokarnir sem eru utan allra laga og reglugerða eru hins vegar með 16 mg/g í hverjum skammti,“ segir Lilja Dögg. Þessir pokar eru á einni vefsíðunni auglýstir: „Fyrir þá allra hörðustu.“ Þarna eru menn augljóslega ekki að beina vörunni að þeim sem vilja hætta að reykja.

Hún bendir á að talið sé að skammtur upp á 50-60 mg af nikótíni geti verið banvænn. „Það þarf því aðeins fimm slíka poka til þess að fara upp í mjög hættulegt magn. Það vekur furðu að innflutningurinn sé látinn algjörlega eftirlitslaus. Vefverslanirnar höfða til ungs fólks á Facebook og Instagram eins og um lífsstílsvöru sé að ræða. Það má leiða líkur að því að ungt fólk sem hefur aldrei reykt eða myndi aldrei reykja sé farið að brúka og orðið háð nikótíni. „Í þessari lögleysu er ástandið núna eins og villta vestrið,“ segir Lilja Dögg.

Hún bendir á að margt sé líkt með pokunum og sölu á rafrettum með nikótíni á sínum tíma. „Það tók langan tíma að fá ríkið til þess að grípa til aðgerða í þeim málaflokki. Við höfum áhyggjur af því að sagan sé að endurtaka sig með pokana.“

Í skriflegu svari frá Lyfjastofnun kemur fram að afstaða stofnunarinnar gagnvart þessum vörum sé sú að nikótínpokarnir séu ekki lyf samkvæmt skilningi lyfjalaga.

„Fyrir liggur að þær vörur sem um ræðir eru hvorki framleiddar né markaðssettar sem lyf. Því til viðbótar hafa þessar vörur sem um ræðir engar áletranir um lyfjavirkni eða ábendingar um gagnsemi við meðferð sjúkdóma, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem Lyfjastofnun hefur aflað,“ segir í svarinu.