Þingfundur hefst klukkan eitt í dag og má búast við því að umræður um kjörbréfamálið standi yfir í allan dag.

„Ég á ekki von á að umræður dragist langt fram á kvöld,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi þingforseti. Þó þurfi tíma til að ræða málið.

Að sögn Þorgerðar Katrínar verði atkvæðagreiðslu frestað til morguns, dragist umræður mjög.

Búist er við því að greidd verði atkvæði um þrjár tillögur og að sú tillaga sem lengst gangi verði afgreidd fyrst og svo koll af kolli.

Tillögur kjörbréfanendar eru þrjár; að staðfesta þau 63 kjörbréf sem hafa verið gefin út miðað við síðari talningu í Norðvesturkjördæmi, kosið verði aftur í kjördæminu eða að kosið verið aftur á öllu landinu.

Þorgerður Katrín fundaði með þingflokksformönnum í gær til að fara yfir umræður dagsins í dag.

Líkt og fyrr segir er stefnt að atkvæðagreiðslu í málinu í dag með möguleika á að það dragist til morguns. Eftir að atkvæðagreiðslu hefur verið lokið getur ríkisstjórnin kynnt nýja ríkisstjórn og stjórnarsáttmála.