„Þessi niðurstaða er bæði lögfræðilega athyglisverð og einnig mjög mikilvæg fyrir þrotabúið. Þarna reynir í fyrsta sinn á túlkun ákvæða aðfararlaga sem fjalla um ábendingarrétt gerðarþola þegar gerðarbeiðandi á fyrir tryggingu í eigu þriðja manns aukinheldur sem í dómnum er varpað ljósi á hið algerlega vannýtta úrræði löggeymslu; sem er eins konar fjárnám en á afrýjunarstigi,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður um úrskurð Landsréttar í máli Skúla Gunnars Sigfússonar og Sjöstjörnunnar gegn þrotabúi EK1923 ehf sem sem birtist 20. maí síðastliðinn. Deilt var um hvort heimilt hefði verið að taka í löggeymslu fasteignir Skúla, sem höfðu verið kyrrsettar, til tryggingar kröfu á hendur Sjöstjörnunnar.

„Mikilvægi niðurstöðunnar felst í því að með þessu er ljóst að staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Rvikur frá því í október sl er krafa þrotabúsins að mestu tryggð og því ágætar líkur á því að allir kröfuhafar í þrotabú EK1923 fái kröfur sínar gerðar upp að fullu. Slíkt er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir alla skiptastjóra.“

Skúli Gunnar og Sjöstjarnan ehf ber að greiða Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni þrotabús EK1923, 250.000 krónur í kærumálskostnað samkvæmt úrskurðinum.

Málið á sér langan aðdraganda, og hafa Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður þrotabúsins, og Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, staðið í ritdeilum í kastljósi fjölmiðla.

Sveinn Andri hafði tilkynnt Skúla, ásamt Guðmundi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra Sjöstjörnunnar, til embættis Héraðssaksóknara, vegna gruns um að þeir hafi gerst sekir um skilasvik og fjárdrátt eða umboðssvik í störfum sínum fyrir félagið.

Skúli kærði jafnframt Svein Andra til héraðssaksóknara fyrir meintar ólögmætar þvinganir og rangar sakargiftir.