Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, naut yfirburðastuðnings meðal Pólverja búsetta á Íslandi í pólsku forsetakosningunum sem fram fóru í gær. Andstæðingur hans Andrezej Duda hlaut nauman sigur í kosningunum.

Sé einungis horft til þeirra atkvæða sem greidd voru í pólska sendiráðinu við Þórunnartún hlaut Trzaskowski 79,8% stuðning með 2.533 atkvæði en Duda hlaut 20,2% eða 641 atkvæði.

Þetta kemur fram á kosningavef pólskra stjórnvalda en RÚV greindi fyrst frá.

Andrezej Duda, sitjandi forseti og frambjóðandi stjórnarflokksins Laga og réttar, reyndist þó sigurveigari seinni umferðar með 51,2% atkvæða. Hinn frjálslyndi Trzaskowski, frambjóðandi miðjuflokksins Civic Platform, hlaut 48,8% atkvæða.

Fyrri umferð kosninganna fór fram í lok júní en þar hlaut enginn frambjóðandi nauðsynlegan meirihluta.

3.174 gild atkvæði voru talin í sendiráðinu í gær en 4.520 voru hér á kjörskrá. 71% þeirra nýttu kosningarétt sinn sem er hærra hlutfall en í Póllandi þar sem kjörsókn var 68,2%, ein sú mesta í sögunni.

Atkvæði voru talin í sendiráðinu og niðurstöður sendar með rafrænum hætti til Póllands.

Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, sagði í samtali við Stöð 2 þegar fyrri umferð kosninganna fór fram að aldrei hafi verið jafn mikill áhugi á pólsku forsetakosningunum hér á landi.

Það vakti ekki síður athygli að niðurstöður í síðustu þingkosningum meðal Pólverja á Íslandi voru töluvert á skjön við heildarniðurstöðuna þar sem Lög og réttlæti tryggði sér þingmeirihluta.

Þá fékk flokkurinn aðeins 17% á Íslandi en Vinstribandalagið fékk flest atkvæði eða 27%. Bandalag um frelsi og sjálfstæði, sem hefur verið lýst sem öfgahægrimönnum, fékk 26% og Frjálslyndi borgaraflokkurinn 25%.