Ekki verður upplýst um niðurstöðu stjórnar RÚV fyrr en á morgun í máli Helga Seljan og Samherja. Fyrirtækið hefur, meðal annars, krafist þess að hann fjalli ekki um málefni fyrirtækisins á vettvangi RÚV eða með öðrum.

Formaður stjórnar RÚV, Jóhanna Olga Hreiðarsdóttir, segir í samtali við Fréttablaðið að stjórnin hafi fundað um málið og að hún muni formlega kynna lögmanni Samherja afstöðu þeirra á morgun. Því sé ekki hægt að greina frá henni í kvöld.

„Þetta var til umræðu á fundinum og formanni hefur verið falið að svara erindinu fyrir hönd stjórnarinnar og ég mun gera það formlega á morgun,“ segir Jóhanna Olga í samtali við Fréttablaðið.

Stjórnin kom saman á reglulegum fundi í dag og tók þar fyrir kröfu Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, um að einn fréttamanna RÚV, Helgi Seljan, fjalli ekki um málefni fyrirtækisins á vettvangi RÚV og að hann verði áminntur fyrir brot í starfi.

Samherji krafðist þess formlega, með vísan til niðurstöðu siðanefndar RÚV um tjáningu Helga Seljan á Samfélagsmiðlum, að Helgi fjalli ekki frekar um málefni fyrirtækisins á vettvangi Ríkisútvarpsins og vinni ekki að slíkri umfjöllun í samstarfi við aðra.

Jóhanna Olga segir að þegar hún hafi tilkynnt lögmanni Samherja um afstöðu stjórnarinnar verði hún gerð opinber.