Á þriðjudaginn í næstu viku mun Mannréttindadómstóll Evrópu kveða upp dóm í máli átta ára gamals drengs og fráskilinna hjóna sem árangurslaust hafa barist fyrir viðurkenningu á því að þau séu foreldrar hans.

Hjónin, sem eru íslenskar, samkynhneigðar konur, fengu bandaríska staðgöngumóður til að ganga með drenginn fyrir sig. Hann fæddist í Kaliforníu í Bandaríkjunum 14. febrúar 2013.

Notað var bæði gjafaegg og gjafasæði við getnað barnsins og skömmu eftir fæðingu þess viðurkenndi bandarískur dómstóll að íslensku konurnar væru mæður drengsins að lögum. Hvorki staðgöngumóðirin né egg- eða sæðisgjafinn ættu rétt til barnsins sem foreldrar.

Íslensk lög heimila ekki staðgöngumæðrun og þegar hjónin komu með son sinn til Íslands hafnaði Þjóðskrá beiðni þeirra um að fá drenginn skráðan sem son sinn og um leið að drengurinn fengi íslenskan ríkisborgararétt.

Var drengurinn í kjölfarið tekinn í umsjá hins opinbera en hjónin gerð að fósturforeldrum hans.

Kærðu ákvörðun Þjóðskrár

Hjónin kærðu ákvörðun Þjóðskrár til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti synjunina. Þær óskuðu eftir ógildingu ákvörðunarinnar fyrir héraðsdómi og loks Hæstarétti. Bæði dómstig mátu það svo að Þjóðskrá hefði verið rétt að hafna beiðninni. Niðurstaða Hæstaréttar byggði á því að konurnar eigi engin líffræðileg tengsl við drenginn.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að konurnar hafi reynt að fá að ættleiða drenginn en þegar þær skildu féll umsóknin niður.

Árið 2015 var drengnum svo veittur ríkisborgararéttur með lögum frá Alþingi. Konurnar skildu sama ár og var drengurinn settur í fóstur til annarrar þeirra og sambýliskonu hennar.

Þegar niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir árið 2017 var drengurinn orðinn fjögurra ára. Hann varð átta ára í febrúar síðastliðnum.

Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu byggja konurnar og drengurinn þeirra á 8. gr. Mannréttindasáttmálans um rétt til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og á 14. gr. um bann við mismunun. Þær vísa bæði til þess að fólk í sömu fjölskyldu eigi rétt á því að fjölskyldutengsl þeirra séu opinberlega viðurkennd.

Þá vísa þau einnig til þess að íslenskir dómstólar hafi viðurkennt foreldratengsl í kjölfar notkunar staðgöngumóður þegar um foreldra af sitt hvoru kyninu var að ræða og byggja á því að þeim hafi verið mismunað vegna samkynhneigðar sinnar.

Verða að tryggja möguleika á lagalegri viðurkenningu á sambandi þess við hina ætluðu móður

Í sínu fyrsta ráðgefandi áliti sem Mannréttindadómstóllinn skilaði árið 2019, á grundvelli nýs viðauka sáttmálans, svaraði dómurinn spurningum frá Hæstarétti Frakklands um svipað álitaefni og um ræðir í tilviki íslensku fjölskyldunnar.

Að áliti dómsins verða aðildarríki sáttmálans að tryggja börnum sem getin eru með sæði föður en aðstoð staðgöngumóður, möguleika á lagalegri viðurkenningu á sambandi þess við hina ætluðu móður. Ekki er, að mati MDE, nauðsynlegt að þetta gerist með skráningu í fæðingarvottorð heldur megi fara aðrar leiðir eins og ættleiðingu.

Mál það sem ráðgefandi álitið er veitt um er vissulega frábrugðið því íslenska, að því leyti að þar er faðir barnsins einnig sæðisgjafi og þannig líffræðilega tengdur barninu. Ætluð móðir barnsins á hins vegar engin líffræðileg tengsl við það, líkt og í tilviki íslensku kvennanna og um þau tengsl fjallar álitið.