„Það er gríðarlega sorglegt að þingmenn hafi ekki getað með minnsta samþykkt tillöguna um að Kjaölduveita og Héraðsvötn færu aftur í verndarflokk,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um niðurstöðu Alþingis um að samþykkja þriðja áfanga rammaáætlunar í dag.

Alls greiddu 34 þingmenn atkvæði með málinu, sjö greiddu á móti því en athygli vakti að fimmtán þingmenn sátu hjá.

Auður Önnu segir mjög sérstakt að sjá hve fáir þingmenn hafna þingsályktunartillögunni eins og hún kom frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefnd. „Því sú tillaga var ekki byggð á neinum faglegum rökum og maður þarf að geta gert þær kröfur til þingmanna að það sé verið að taka faglegar ákvarðanir.“

Niðurstöðuna segir Auður Önnu ábyrgðarlausa og huglausa. „Við verðum að taka skýra afstöðu með náttúru Íslands. Við getum ekki setið hjá, þetta er Alþingi Íslendinga sem ber æðstu ábyrgð á náttúru Íslands og fólk situr bara hjá í svona mikilvægu máli.“

Sorgleg arfleið ríkisstjórnarinnar

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, greiddi atkvæði gegn áætluninni og auk hans greiddu aðeins Píratar gegn málinu. Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn sátu hjá eða voru fjarverandi nema Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks. Hann greiddi atkvæði með áætluninni.

Auður Önnu segir ákvörðunina mjög sorglega arfleifð þessarar ríkisstjórnar, að koma þessum svæðum ekki í skjól því að náttúruverndar verðmætið sé óumdeilt. Hún segir svæðin nú þurfa að fara aftur í gegnum matrammaáætlun og að niðurstaða verkefnastjórnar rammaáætlunar þrjú hafi verið algjörlega skýr.

„Héraðsvötn fengu hæstu einkunn í verðmætamati þegar það kom að náttúru- og menningarminjum. Ef það er ekki maðkur í mysunni þá fer þetta beint aftur í verndarflokk. Hins vegar er greinilega einhver sem hefur von um að þetta fari í nýtingarflokk og þá ætla menn greinilega, að mínu mati, að reyna hafa áhrif á verkefnastjórn rammaáætlunar fimmta áfanga til þess að koma því í nýtingu,“ segir Auður Önnu og bætir við: „Því til hvers að setja þetta í biðflokk, bara til að auka vinnu verkefnastjórnar rammaáætlunar fimm?“

Landsvirkjun muni reyna hafa áhrif

Auður Önnu er þó bjartsýn á að faghópar, sérstaklega eitt og tvö sem fara með náttúru- og menningarminjar og aðra nýtingu en virkjanir, muni halda áfram að vinna faglega með málið.

„Það er algjörlega grundvöllur laganna um rammaáætlun að vinnan skuli vera fagleg og hún verður það örugglega áfram. En hverjir verða á valdastólum þegar verkefnastjórnin skilar síðan af sér, það veit ég ekki. Ég á von á því að Landsvirkjun muni reyna beita sínum áhrifum eins og þeir geta,“ segir Auður Önnu að síðustu.