Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að þeir niðurskurðaliðir sem hafa verið kynntir til leiks, muni hafa víðtæk áhrif á starfssemi sjúkrahússins og séu fallnar til að geta mögulega skert öryggi þeirra sem leita til Landspítalans.

Hann segir viðbrögð formanna læknaráðs, hjúkrunarráðs og annarra vera samhljóma í því mati að liðirnir sem um ræðir muni óhjákvæmilega bitna á þjónustu við sjúklinga.

„Það er grafalvarlegt og má ekki gerast,“ segir Reynir í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla í dag.

Reynir segir engar áætlanir hafi verið um hvernig ætti að fjármagna pakkann sem kominn var í tæpar þúsund milljónir króna umfram heimildir þegar gripið var inn í.

„Niðurstaðan í dag sé sú að forstjóri sjúkrahússins hafi kynnt að skera þurfi niður verkefni og þjónustu þess um tæpan miljarð á yfirstandandi ári eða um svipaða fjárhæð og umræddar aukagreiðslur utan fjárlaga ársins hafi numið,“ segir Reynir og bætir við að nauðsynlegt sé að skoða fyriráætlanir yfirstjórnar Landspítala í þessu samhengi.

Hann segir þær starfsstéttir sem ekki fengu „launaumbun“ umfram fjárlög og gildandi launaviðmið, lífeindafræðingar, sjúkraliðar og geislafræðingar, hafi einnig verið undir miklu álagi. Hann sakar Landspítalann um að gæta ekki jafnræðis í umframgreiðslum launa.

Reynir hefur áður sagt jafnlaunavottunarkerfið vera gallað þar sem það væri byggt á breska kerfinu sem ekki tekur tillit til lækna. Hann segir málið þó ekki snúast um hversu mörgum tugum eða hundruðum milljóna kostnaður við innleiðingu kerfisins hlaupi á, heldur snúist það um faglegan trúverðugleika yfirstjórnar sjúkrahússins.

„Svokölluð aðlögun og íslensk staðfæring breska kerfisins til að meta störf lækna í jafnlaunaferlinu hefur mistekist hrapalega í höndum Landspítalans,“ segir Reynir.

„Þrátt fyrir þetta stefnir yfirstjórn spítalans á að grundvalla jafnlaunavottun sína á þessu kerfi sem er með innbyggðum villum varðandi mat á störfum lækna. Slíkum ófaglegum vinnubrögðum og ákvörðunum verður staðfastlega að mótmæla.“