Skrásetningargjald í Háskóla Íslands hækkar um 20.000 krónur. Skólanum ætlað að skera niður. Erfitt að reka skóla þegar nemendafjöldi sveiflast mikið til, segir rektor.

Háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt harðorða bókun þar sem ráðið lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga árið 2023.

„Eftir mikla fjölgun nemenda í kjölfar covid þar sem brugðist var við óskum stjórnvalda um að opna skólann fyrir fleiri nemendum er boðuð lækkun fjárveitinga með skömmum fyrirvara,“ segir í bókun Háskólaráðs.

Einnig segir í bókuninni að erfitt sé fyrir Háskólann að bregðast við. Rektor muni ræða við stjórnvöld um stöðuna sem komin er upp.

Jón Atli Benediktsson rektor HÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið þar sem hann var staddur í Amsterdam í gærkvöld að hann vonist til að samtöl sem hann hafi átt við stjórnvöld síðustu daga skili árangri með auknum fjármunum. Fyrir aðra umræðu fjárlaga sé um 500 milljóna króna gat.

Fréttablaðinu er kunnugt um að óvinsælar hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir bitni með mismiklum hætti á deildum skólans að óbreyttu. Meðal annars eru til skoðunar tillögur sem munu þrengja að einkaskrifstofum kennara. Rektor segir þó ekki alla von úti og ívíst sé hve harkelag þurfi að bregðast við. Erfitt sé að reka skóla þegar nemendafjöldi sveiflist svo mikið til vegna heimsfaraldurs.

Fyrir liggur einnig að skrásetningargjald verður hækkað verulega næsta ár, það fer að líkindum úr 75.000 krónum í 95.000.

Í bókun Brynhildar Ásgeirsdóttur fulltrúa stúdenta í Háskólaráði segir: „Það er sorgleg staða að óskað sé eftir því að stúdentar beri uppi rekstur opinberrar háskólamenntunar með þessum hætti. 95.000 krónur er margfalt meira en tíðkast á Norðurlöndunum.“

Stúdentar telja að gjaldið sé í raun dulbúið skólagjald en rektor bendir á að gjaldið hafi lengi verið óbreytt og nauðsynlegt sé að hækka það. Ekki sé um skólagjald að ræða heldur tryggingu fyrir að geta veitt ákveðna þjónustu.

„Almenningi og þar á meðal stúdentum hefur verið talið trú um að hér sé búið þannig um að opinber háskólamenntun sé gjaldfrjáls að öðru leyti en að gjald renni í skrásetningu.

Þegar betur er að gáð stenst það ekki, enda eiga umræddar 95.000 krónur að renna í skipulag prófa, skipulag kennslu, og ýmsan rekstur,“ segir í bókun fulltrúa stúdenta.