Sum börn sem dvöldu á vöggustofum Reykjavíkur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar við mikla vanrækslu fóru í sveit á sumrin árum síðar, þar sem mörg þeirra fóru úr öskunni í eldinn.

Félagsmálayfirvöld voru þá með útboð meðal bænda en þau sem buðu lægsta meðlagið fengu börn. Engin athugun eða könnun var framkvæmd til að tryggja öryggi barnanna að sögn Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings, sem upplifði sjálfur vanrækslu á vöggustofu og ofbeldi í sveit.

Hann segir margar hræðilegar sögur um vistirnar í sveitinni. „Í versta falli voru þetta níðingar að panta sér börn að sunnan,“ segir Árni í samtali við Elínu Hirst.

Fjölmörg börn sem vistuð voru á vöggustofum fóru þegar aldur leyfði á aðrar stofnanir svo sem Elliðahvamm og Silungapoll. Þessi börn voru á aldrinum 4 til 12 ára og oft send í sveit á sumrin á vegum félagsmálayfirvalda Reykjavíkurborgar.

„Ég veit til þess að það voru stelpur sem voru misnotaðar heilu sumrin.“

Árni dvaldi sem ungabarn á vöggustofu Reykjavíkurborgar og var síðar með fasta búsetu á stofnun, en á sumrin fluttist hann ítrekað milli sveitarbæja þar sem hann var í fóstri, við misslæmar aðstæður.

„Ég veit til þess að það voru stelpur sem voru misnotaðar heilu sumrin. Ég lenti á bæjum þar sem ég var hýddur daglega fyrir það eitt að vera til,“ segir Árni. Sömuleiðis fékk hann óætan mat.

„Það byrjaði kannski fyrsta morguninn þegar maður fékk skyrhræring sem var gallsúr upp úr tunnu. Svo var slett út á kepp úr tunnu líka og þetta var auðvitað mjög erfitt að borða en maður lærði það frá fyrsta degi að gjöra svo vel að þræla þessu ofan í sig ef maður vildi ekki vera hýddur.“

Árni segist vilja rannsaka almennilega við hvers konar aðstæður félagslega illa stödd börn þurftu að búa á vegum Reykjavíkurborgar.

„Auðvitað kom fyrir að maður lenti á góðum bæjum. Ég átti mjög góða vist í Auðsholti í Biskupsstungum 1970 og 1971. Þar á ég bara góðar minningar af góðu fólki.“

Seinni þáttur um Vöggustofurnar verður sýndur á Hringbraut í kvöld. Elín Hirst þáttastjórnandi og Pétur Fjeldsted kvikmyndatökumaður og framleiðandi halda áfram að fjalla um vöggustofumálið en ætla næst að að kafa ofan í það sem tók við eftir að dvölinni var lokið.