Niceair á Akureyri fékk í fyrradag gefið út ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu. Óljóst er hvort það nægi til að fyrirtækið geti tekið upp þráðinn frá í lok maí og boðið reglulegt flug til London.

Ekki náðist tal af Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, forstjóra félagsins, í gær til að varpa ljósi á málið.

Eins og fram hefur komið þurfti Niceair að fella niður flug sitt frá Akureyri til London fljótlega eftir að það hófst þar sem flugmálayfirvöld í Bretlandi sögðu nauðsynleg leyfi fyrir slíku flugi ekki fyrir hendi hjá Niceair.

Niceair hefur hins vegar haldið sínu striki með flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife. Sem fyrr fer það flug fram undir merkjum leiguflugfélagsins Hi Fly sem er með flugrekstrarleyfi frá Möltu.