Breska flug­mála­stjórnin hefur eftir nokkra daga um­hugsun á­kveðið að svara ekki spurningum frá Frétta­blaðinu varðandi vand­kvæði við flug á vegum Niceair til og frá London.

„Þar sem þetta er ís­lenskt fyrir­tæki væri meira við­eig­andi að Sam­göngu­stofan á Ís­landi svaraði,“ segir í svari frá Civil Avi­ation Aut­ho­rity (CAA), bresku flug­mála­stjórninni, sem barst í gær.

„Það er Sam­göngu­stofa á Ís­landi sem veitir ís­lenskum flug­fé­lögum leyfi svo þú ættir að spyrja hana hvort þessir aðilar hafa leyfi fyrir starf­seminni,“ svarar breska flug­mála­stjórnin þegar gengið er eftir svari.

Þá er CAA bent á að ekkert ís­lenskt flug­fé­lag tengist flugi á vegum Niceair til London. Niceair sé ekki flug­fé­lag og fé­lagið sem annist flugið, Hi Fly, sé portúgalskt með flug­rekstrar­leyfi frá Möltu. „Niceair er leigu­flug­fé­lag sem leigir vél sína frá HiFly Malta, dóttur­fé­lagi HiFly,“ hljóðar þá svarið frá CAA, sem þá er bent á að Niceair hafi alls ekkert flug­rekstrar­leyfi yfir höfuð.

„Ef svo er þá mega þeir ekki fljúga,“ svarar þá breska flug­mála­stjórnin í loka­svari sínu í gær.

Í fram­haldi þessara sam­skipta leitaði Frétta­blaðið til Sam­göngu­stofu og óskaði skýringa á stöðunni. Meðal annars var stofnunin spurð að því á hvaða grund­velli Niceair hefur getað haldið á­fram flugi sínu til London þótt til­skilin leyfi virðist vanta. Eins og breska flug­mála­stjórnin svarar Sam­göngu­stofa ekki þeirri spurningu og vísar því á bug að málið heyri undir stofnunina.

„Við undir­búning Niceair var ekki leitað til ís­lenskra sam­göngu­yfir­valda, enda er flug­rekandinn sjálfur skráður á Möltu. Á­bending um að málið liggi hjá ís­lenskum sam­göngu­yfir­völdum er því ekki rétt,“ segir í svari frá Sam­göngu­stofu sem kveður ís­lensk sam­göngu­yfir­völd og utan­ríkis­ráðu­neytið hafa leitað allra leiða til að greiða götu fyrir­tækisins frá því það óskaði að­stoðar um liðna helgi.

„Vandinn liggur í því að við undir­búning á­ætlunar­flugsins var til­skilinna leyfa breskra flug­mála­yfir­valda vegna far­þega­flugs ekki aflað. Þau sam­skipti og leyfis­mál eru al­farið og hafa verið á á­byrgð flug­rekandans og ferða­skrif­stofunnar,“ undir­strikar Sam­göngu­stofa. Virðist þar vísað til þess að Niceair sé ferða­skrif­stofa sem fyrir­tækið er ekki sam­kvæmt opin­berum skrám.

Á­formað flug Niceair til London í dag var í gær skráð vera á á­ætlun á síðu Isavia fyrir Akur­eyrar­flug­völl. „Það er stefnt að því,“ svaraði Þor­valdur Lúð­vík Sigur­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins, þegar hann var inntur eftir því í gær­kvöld hvort af fluginu yrði.

Þor­valdur Lúð­vík sagði það ekki alla skýringuna að ekki hafi verið sótt um til­skilin leyfi í Bret­landi. Vandinn lægi einnig í því að flug­rekandinn HiFly sé í Evrópu­sam­bands­landi en Ís­land og Bret­land séu með tví­hliða loft­ferða­samning.

„Við erum að leysa þetta, meðal annars með því að fá ís­lenskan flug­rekanda að borðinu,“ sagði hann en vildi ekki skýra frá því að svo stöddu hvert um­rætt fé­lag væri. „Við erum í miðri á og erum að reyna að komast á þurrt.“