Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Niceair, staðfesti að flugfélagið hefði flogið með tóma vél frá Lundúnum í dag til Keflavíkur í stað Akureyrar.

Að sögn Þorvaldar barst skyndileg ábending frá Bretlandi stuttu eftir flugtak á Akureyri í morgun um að flugrekstraleyfi Hifly sem leigir Niceair vélar og áhafnir væri ekki heimilt til áætlunarflugs.

„Það er óljóst á þessari stundu hvað er rétt í þessu. Við fengum símtal, tíu mínútum eftir flugtak í morgun frá manni í Bretlandi sem fullyrti að það væru vandræði með flugrekstrarleyfið. Við höfum í raun ekki heyrt neitt til viðbótar þrátt fyrir að hafa óskað eftir nánari úskýringum á þessu,“ segir Þorvaldur í samtali við Fréttablaðið.

Þetta var fyrsta flug flugfélagsins til Englands en í gær var fyrsta áætlunarflug félagsins til Kaupmannahafnar.

„Flugrekstrarleyfið var ein ástæða sem var nefnd og önnur ástæða nefnd í annarri andrá. Í ljósi óvissunar ákváðum við að koma okkar farþegum heimleiðis með öðrum leiðum til að eyð óvissunni,“ sagði Þorvaldur og staðfesti að aðeins starfsfólk hefði verið um borð í vélinni sem ferðaðist frá London til Keflavíkur í dag.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru farþegarnir þrjátíu sem áttu að vera um borð í vélinni til Akureyrar væntanlegir til Keflavíkur með vél Icelandair síðar í dag þar sem vél Niceair bíður til þess að ferja farþegana til Akureyrar.

„Ég tel rétt á þessari stundu að segja sem minnst uns við vitum um hvað þetta undarleg inngrip snýst,“ bætti Þorvaldur við.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eiga sömu takmarkanir ekki við Danmörku og ættu því ekki að hafa áhrif á flug flugfyrirtækisins til Kaupmannahafnar á sunnudaginn.