Innlent

Nýi Þrasta­lundur: Af­­skrifa bröns og lækka verð á kaffi

Einn umtalaðasti veitingastaður landsins hefur opnað dyr sínar að nýju. Kaffibollinn kostar nú 250 krónur og búið er að strika bröns út af matseðlinum.

Nýir rekstraraðilar Þrastalundar stefna ekki að því að bjóða áhrifavöldum í mat. Mynd/Facebook

Nýir rekstraraðilar Þrastalundar í Grímsnesi hafa kosið að halda ekki brönsarfleifð veitingastaðarins á lofti. Pítsur eru heldur ekki á matseðli hins nýja Þrastalundar sem opnaði dyr sínar að nýju fyrir stuttu en verð á kaffibolla hefur lækkað umtalsvert að sögn nýrra rekstraraðila. 

Áhrifarvaldar elskuðu Þrastalund

Þrastalundur í Grímsnesi vakti gífurlega athygli fyrir tæpum tveimur árum þegar flestir áhrifavaldar landsins lögðu leið sína austur í Grímsnes til að gæða sér á bröns. 

Um var að ræða vel heppnaða markaðssetningu í boði fyrrum eiganda Þrastalundar, enda virtust áhrifavaldarnir nokkuð lukkulegir með bitann og lofsömuðu staðinn á samfélagsmiðlum. 

„Þegar við mættum fengum við góða þjónustu og ekki skemmdi fyrir hversu kósý og fallegur staðurinn er. Einnig er búð þarna sem hægt er að kaupa allskonar matvæli og fleira.“

Svona komst til að mynda einn áhrifavaldur að orði eftir heimsókn á veitingastaðinn árið 2017. 

Veitingastaðurinn Þrastalundur í Grímsnesi var á allra manna vörum þegar að fjöldi áhrifavalda lagði leið sína þangað í bröns.

Þrátt fyrir farsælan feril á samfélagsmiðlum lokaði Þrastalundur dyrum sínum á síðasta ári og sáu eflaust margir á eftir einum þekktasta veitingastað landsins. 

Hann hefur nú opnað dyr sínar að nýju, en að baki honum standa vinirnir og samstarfsfélagarnir, Celio Sosa eigandi og Björn Þór Baldursson rekstrarstjóri. 

Þeir Celio og Björn Þór hafa breytt matseðlinum töluvert og er þar, sem fyrr segir, hvorki að finna bröns né pítsu. Hins vegar er hægt að snæða morgunverð og ýmislegt annað. 

Sjá einnig: In memoriam: Þrastalundur

Ekki hefur farið mikið fyrir opnun Þrastalundar að nýju, heimasíðan er enn í vinnslu og ekki er verið að spreða í flennistórar auglýsingar. Á Facebook-síðu veitingastaðarins segir einfaldlega: 

„Þrastalundur hefur nú opnað að nýju eftir eigendaskipti og nokkrar breytingar. Nú er nýr matseðill í gangi sem samanstendur af úrvali nýrra rétta svo sem forréttir, súpur, hamborgarar, samlokur, steikur fiskréttir, BBQ rif, pasta, kjúklingabringur og eftirréttir svo eitthvað se nefnt. 

Í kaffiteríunni er ýmislegt gott á boðstólnum svo sem pylsur, allar tegundir af kaffi og heitt súkkulaði. Bakkelsi, vöfflur með rjóma og heitar samlokur eru í boði svo og súpa með heitu brauði. Litla verslunin okkar er í mótun og markmiðið er að bjóða upp á flest sem gott er að grípa með sér á leiðinni í bústaðinn eða heim. Gas, tóbak , fatnaður og ýmislegt fleira verður á lægra verði en flestir aðrir bjóða.“

Sumir sakna þess að fá bröns og pítsu 

„Við hættum bæði með bröns og pítsu. Nú er kominn matseðill sem allir ættu að geta sætt sig við,“ segir Björn Þór Baldursson veitingamaður í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður hvort til standi að bjóða áhrifavöldum í mat, þrátt fyrir að brönsinn margumræddi sé horfinn af matseðlinum segir hann það ekki standa til, sjálfur treystir hann á mátt Facebook í auglýsingaskyni. 

Segir hann að þó einn og einn sakni einkennisrétta staðarins, dögurðar og pítsu, fari allir sáttir.

Engin áhrifavaldamarkaðssetning í kortunum

Þrastalundur rataði enn á ný í fréttirnar snemma á síðasta ári þegar meðvitaður neytandi komst að því að 750 millilítar af vatni kostuðu 750 krónur í búð við veitingastaðinn. Í kjölfar símtals frá blaðamanni mbl.is var verðið lækkað í 450 krónur og sagði fyrrum eigandi veitingastaðarins að um mistök væri að ræða. 

Björn Þór segir verð hafa lækkað umtalsvert í verslun veitingastaðarins frá því Þrastalundur opnaði að nýju. 

„Stóra breytingin er kannski að hér var kaffitería, þegar þú kemur inn sem bauð upp á ís og pylsur og bakkelsi. Þar byrjuðum við á því að lækka verðin svona um fimmtíu til sextíu prósent,“ segir Björn Þór og bendir á að kaffibollinn sem kostaði 590 krónur áður kosti nú 250 krónur. Er því nokkuð öruggt að fullyrða að um sé að ræða einn ódýrasta kaffibolla Suðurlands. 

„Svo erum við að reyna að bæta í búðina og vera með mjólkurverur, brauð og ýmislegt sem fólkið í bústöðunum vantar. Það þarf að breyta ímyndinni, ég vill fá Íslendingana til baka,“ segir Björn. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

In memoriam: Þrastalundur

Veður

Kaldur vindur í dag og stormur í nótt

Innlent

Munu sækja tjón sitt vegna friðunar

Auglýsing

Nýjast

Heilsugæslan ekki nútímafólki bjóðandi

Segir að ekki þurfi að velja milli hagsmuna ólíkra félaga

Hafna uppbyggingu á Granda

Fyrri frið­lýsingin nauð­syn­leg til að ná fram sátt

​Fallast á vernd um Víkur­garð

Komst yfir upp­lýsingar um 422 börn í Mentor

Auglýsing