Síðan 2016 hefur NHTSA rannsakað 39 slys þar sem sjálfkeyrslubúnaður var talinn orsakavaldur. Af þessum 39 slysum var Tesla með Autopilot í 30 tilvikum. Umferðaröryggissamtökin Center for Auto Safety hafa hvatt NHTSA til að innkalla Atopilot-búnað Tesla. „Það er mér ljóst, og eflaust mörgum Tesla-eigendum, að þessi búnaður virkar ekki sem skyldi og setur saklausa ferðalanga í hættu,“ sagði Michael Brooks, formaður samtakanna. Elon Musk hefur hætt að nota radarskynjara í bílum Tesla og reiðir sig eingöngu á myndavélar og tölvubúnað. Að mati Brooks og margra annarra hamlar það getu Tesla-bíla til að sjá í myrkri. Eins og venjulega er eina svar Tesla það að Autopilot ætti aldrei að nota nema að ökumaður sé viðbúinn allan tímann. NHTSA er einnig með til skoðunar slys þar sem Tesla-bílar með Autopilot virkan hafa ekið aftan á neyðarbíla á þjóðvegum.