„Neyt­enda­stofa hefur orðið vör við að það sé verið að falsa þessa merkingu í mörgum til­fellum,“ sagði Auður Alfa Ólafs­dóttir, verk­efnis­stjóri verð­lags­eftir­lits ASÍ, í við­tali við Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni í dag.

Niður­stöður verð­könnunar ASÍ á and­lits­grímum sem birtar voru í dag vöktu tals­verða at­hygli, en sam­kvæmt þeim er mikill verð­munur á slíkum grímum. Lægsta stykkja­verðið var að finna í Costco, eða 42 krónur stykkið, en hafa ber í huga að þær eru seldar saman í 50 stykkja pakkningu og kosta 2.089 krónur. Lægsta verðið á and­lits­grímum sem seldar voru í stykkja­tali var í Kram­búðinni, eða 49 krónur stykkið.

Teknar úr umferð

At­hygli vakti í til­kynningu sem ASÍ sendi frá sér að Neyt­enda­stofa, sem sér um eftir­lit með and­lits­grímum, hefði orðið vör við að gæðum á grímum sé í sumum til­fellum á­bóta­vant. Af þeim sökum hefði stofnunin tekið tölu­vert af grímum úr um­ferð.

Auður segir að dæmi séu um að svo­kallaðar CE-merkingar hafi verið falsaðar og því miður sé ekki alltaf hægt að treysta því að þær merkingar séu réttar. „Nei, í raun og veru ekki. Það hafa fram­leið­endur verið að prenta þessar CE-merkingar án þess að hafa þær og svo eru lím­miðar sem hafa verið settir á með þessari merkingu,“ sagði Auður.

Gæðamunur þó þær eigi að vera sambærilegar

Grímurnar sem ASÍ skoðaði voru ein­nota og þriggja laga, en ekki var lagt mat á gæði þeirra. Auður segir að vissu­lega sé gæða­munur á þeim og því er ekki úti­lokað að það endur­speglist í háu verði sums staðar.

„Þó að þetta eigi að vera sam­bæri­legar grímur þá er alveg ein­hver munur á þessum grímum þó þær séu allar ein­nota og þriggja laga. Það getur verið gæða­munur á þessum grímum sem voru í könnuninni,“ sagði Auður sem bætti við ASÍ hefði ekki getað metið gæði þeirra.

„Þær eru mis­þykkar, maður sér það, sumar eru gæða­legri en aðrar. Við mátum þetta í raun og veru ekki sjálf en tókum það fram í könnunni að það gæti verið munur þarna á milli.“

Neytendur fylgist með

Auður segir að sam­kvæmt Neyt­enda­stofu sé markaðurinn með þessar and­lits­grímur núna eins og villta vestrið og því þurfi neyt­endur að vera vakandi hvað varðar gæði.

„Neyt­endur eru einnig hvattir til að fara eftir ráð­leggingum stjórn­valda sem mæla ekki með al­mennri notkun á and­lits­grímum nema í þeim til­fellum sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjar­lægð og hafa í huga að notkun and­lits­gríma gagnast að­eins ef reglu­leg hand­hreinsun er stunduð líka,“ sagði í til­kynningu sem ASÍ sendi frá sér í dag.