Þann 1. janúar 2020 öðluðust gildi lög nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar. Taka þau eðlilega á ýmsu er varðar ökutækjatryggingar en Bílgreinasambandið hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem snýr að 12. grein, að sögn Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Þar segir: „Lögboðið vátryggingariðgjald ökutækis ásamt vöxtum og kostnaði hvílir sem lögveð á ökutækinu og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla í tvö ár frá gjalddaga nema gjöldum til ríkissjóðs. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.“ „Þetta þýðir að það er skýrt samkvæmt lögunum að lögboðnar tryggingar, það eru skyldutryggingar, ekki til dæmis kaskó trygging, hvíla sem lögveð á ökutæki í tvö ár frá gjalddaga, burtséð frá því hvort eigendaskipti verða og sama hvort eigendaskiptin eru ein eða 20 talsins. Gengur þetta því framar öllum skuldbindingum fyrir utan gjöld til ríkissjóðs,“ segir María.

Veðrétturinn fylgir bílnum í tvö ár frá gjalddaga og veitir heimild til að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi bíl án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Kröfuhafinn verður að beina kröfunni að skráðum eiganda bílsins á þeim tíma sem hann gerir kröfuna, það er núverandi eiganda bílsins á hverjum tíma, óháð því hver af fyrri eigendum bílsins greiddi ekki iðgjöldin. „Það er því ljóst að í viðskiptum með ökutæki er æskilegt að kanna og fá staðfest hvort séu til staðar vangoldin tryggingariðgjöld eftir 1. 1. 2020. Að öðrum kosti getur nýr eigandi, eða síðari eigendur, lent í því að vera rukkaður um þau gjöld og í versta falli misst bílinn ef hann greiðir ekki. Það er hins vegar einnig ljóst að þetta er illgeranlegt, t.d. í tilfelli margra eigenda og vegna persónuverndarlaga og því verulega íþyngjandi fyrir neytendur og þá sem höndla með notuð ökutæki,“ segir María. Hún segir að með svona lagastoð verði að vera búið að tryggja að neytendur geti nálgast upplýsingar sem þessar áður en viðskipti fara fram.

Hún segir enn fremur að aðilar séu misvel upplýstir um þessi mál og bílasölur hafi til dæmis ekki upplýsingar um hvort vangoldin tryggingariðgjöld séu á þeim ökutækjum sem þær séu að selja. ,,Við höfum heyrt nú þegar af tveimur málum, það er bílum sem seljast til nýs eiganda og í báðum tilfellum er kröfuhafi að rukka núverandi eiganda um greiðslu á kröfunni sem ekki hafði vitneskju á þeim tíma sem kaupin fóru fram um að um vangoldin tryggingariðgjöld væru á ökutækinu,” segir María. Hún segir að Bílgreinasambandið muni áfram skoða málið og vinna í því eins og þarf í samvinnu við viðeigandi aðila eins og FÍB og Neytendasamtökin.