Rekstrarvörur hafa hætt sölu á einnota andlitsgrímum frá framleiðandanum Zhongshan Zhiteng clothing co. í kjölfar þess að hann gat ekki sýnt fram á að þær uppfylli kröfur um öryggi.

Neytendastofa greinir frá þessu og segir að óskað hafi verið eftir gögnum sem sýndu fram á að andlitsgrímurnar, sem bera heitið KN65, væru CE merktar.

Til að svo sé þurfa að vera til gögn sem sýna fram á að hönnun og framleiðsla vörunnar uppfylli allar lágmarkskröfur um öryggi.

„Í ljós kom að framleiðandi gat ekki framvísað fullnægjandi gögnum og ákváðu Rekstrarvörur því að hætta strax sölu á grímunum,“ segir á vef Neytendastofu.

Neytendastofa beinir því til þeirra sem eiga slíkar grímur að skila þeim til Rekstrarvara eða henda þeim.

Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu var einnig ljósmynd af ótengdum andlitsgrímum og þess getið í myndatexta. Sú mynd hefur verið fjarlægð til að draga úr hættu á misskilningi.