Forsvarsmenn breskra neytendasamtaka hafa kært japanska tæknirisann Sony, sem á Play­Station leikjatölvurnar, fyrir að misnota samkeppnisaðstöðu sína á vefbúðinni PlayStation Store. Samkvæmt breska blaðinu The Guardian hljóðar krafa kærenda upp á 5 milljarða punda, eða rúmlega 830 milljarða króna.

Samkvæmt neytendafrömuðinum Alex Neill, sem leiðir málsóknina, hefur Sony sett ósanngjarna skilmála og verð á alla útgefendur sem vilja komast að á breska markaðinum. Álagningin sé 30 prósent sem geri það að verkum að leikir eru oft dýrari í vefbúðinni en á diskum.

„Með þessari málsókn tek ég upp málstað milljóna Breta sem hafa verið ofrukkaðir án þeirra vitneskju. Við teljum að Sony hafi misnotað stöðu sína og stolið af viðskiptavinum sínum,“ sagði Neill.

Skaðabótakrafan fyrir hvern notanda síðunnar hljóðar upp á 67 til 562 pund, eða 11 til 93 þúsund krónur. En PlayStation Store opnaði í Bretlandi árið 2016.

Kærendur eru studdir af fjár­festingafélaginu Woodsford, sem fjármagnar málsóknina gegn því að fá hlut af bótunum falli dómur þeim í vil. En það félag hefur áður stutt sambærilegar málsóknir, til dæmis gegn lesta- og skipafyrirtækjum.

Forsvarsmenn Sony hafa ekki viljað svara fyrir málið.