Mat­væla­stofnun hefur birt saman­tekt á niður­stöðum á neyslu­vatni frá 49 veitum sem þjóna 500 í­búum eða fleiri hér á landi. Um er að ræða þriggja ára tíma­bil, frá árinu 2017 til ársins 2019, þar sem skimað var fyrir ör­verum sem geta gefið vís­bendingu um saur­mengun eða mengun af yfir­borðs­vatni.

Að því er kemur fram í til­kynningu um málið upp­fylltu 14 veitur ekki kröfur sem koma fram í reglu­gerð um neyslu­vatn en þar kemur fram að neyslu­vatn megi ekki inni­halda sjúk­dóms­valdandi ör­verur, vírusa eða efni sem valdið geta heilsu­tjóni.

Veitur sem þjóna 500 íbúum eða fleiri á landinu.
Skjáskot/MAST

Alvarlegt frávik í einu tilfelli

Þá kemur enn fremur fram að hjá sjö veitum, sem þjóna um eitt prósent lands­manna, var um að ræða saur­mengun, en í skýrslu MAST kemur fram að vatnið sem haft var eftir­lit með upp­fyllti ekki kröfur 22 sinnum á tíma­bilinu og reyndist saur­gerla­mengað níu sinnum.

„Á tíma­bilinu greindist E.coli í vatns­sýnum frá 7 veitum. Í einu til­felli var um al­var­legt frá­vik að ræða, þar sem mann­leg mis­tök urðu til þess að menguðu vatni var hleypt inn á dreifi­kerfið. Hjá öðrum veitum var mengunin ekki mikil og úr­bætur voru gerðar,“ segir í skýrslunni.


Skýrslu MAST í heild sinni má nálgast hér.

Saurgerlar greindust í neysluvatni níu sinnum.
Skjáskot/MAST